*

fimmtudagur, 24. september 2020
Fólk 21. ágúst 2011 16:03

Þjónninn sem varð forstjóri

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, hóf starfsferil sinn sem þjónn á Hótel Holti þar sem hann starfaði í sjö ár.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Olíufélagið N1 hefur verið áberandi í viðskiptaumfjöllun fjölmiðla undanfarna daga en ársreikningur félagsins var kynntur fyrir skömmu. Hermann Guðmundsson er forstjóri N1.

Óhætt er að segja að Hermann hafi unnið sig upp í íslensku viðskiptalífi. Ferill hans hófst á Hótel Holti árið 1978 en þar starfaði hann sem þjónn í sjö ár áður en hann réði sig í starf sölufulltrúa hjá Myllunni. Hjá Myllunni var hann um tveggja ára skeið uns hann flutti sig um set innan bakarísbransans og réði sig sem framkvæmdastjóra Ragnarsbakaríis árið 1988. Stansinn hjá Ragnarsbakaríi var þó stuttur því sama ár réð Hermann sig til Sambandsins, nánar tiltekið skipadeildar þess sem nú heitir Samskip. Þar starfaði hann í tvö ár sem sölufulltrúi. Árið 1991 flutti hann sig svo um set á nýjan leik, nú til Ísbolta hf. þar sem hann starfaði sem sölufulltrúi og síðar innkaupastjóri.

Stofnaði eigið fyrirtæki

Segja má að árið 1994 marki þáttaskil á ferli Hermanns en þá stofnaði hann, ásamt öðrum, fyrirtækið Slípivörur og verkfæri ehf. Hjá fyrirtækinu gekk Hermann í öll störf en hann var bæði sölumaður, innkaupastjóri og framkvæmdastjóri. Fimm árum eftir stofnun fyrirtækisins hafði Hermann forgöngu um að félagið keypti, í félagi við aðra fjárfesta, allt hlutafé Bílanausts. Hann tók sæti í stjórn Bílanausts og strax árið 1999 og þremur árum síðar varð hann framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar Slípivörur og verkfæri og voru sameinuð Bílanausti. Því starfi gegndi hann til ársins 2006, um fjögurra ára skeið, uns hann tók við núverandi starfi sínu en þá hafði Bílanaust eignast Olíufélagið og úr varð N1.

Auk þessa situr Hermann í stjórnum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Klaks hf. og Rannsóknarseturs verslunarinnar. Þá hefur hann á undanförnum árum sótt námskeið á vegum hins virta IESE viðskiptaháskóla, bæði í Barcelona og í New York.

Hermann lék um nokkurt skeið knattspyrnu með meistaraflokki Hauka í Hafnarfirði en hann hefur látið hafa eftir sér að þegar hann þurfi að kúppla sig út úr amstri hversdagsins líði honum best á mótorhjólinu. Þar fái hann algjört næði fyrir símanum.