Yfirskattanefnd breytti nýverið bindandi áliti ríkisskattstjóra á þann veg að sala á þjónustu tengt Carbfix-verkefninu úr landi teljist til undanþeginnar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri hafði áður hafnað því að undanþágan ætti við.

Sem kunnugt er þá er Carbfix frumkvöðlafélag sem fangar koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, leysir það í vatni og dælir því síðan í berglög. Þar steinrennist koltvíoxíðið og hverfur því úr andrúmsloftinu. Lausnin hefur vakið athygli víðsvegar um jarðkringluna sem möguleg leið til að draga úr magni kolvíoxíðs í andrúmsloftinu.

Um mitt síðasta sumar óskaði samstarfsaðili Carbfix eftir því við ríkisskattstjóra að Skatturinn léti uppi bindandi álit á því hvort sala félagsins yfir landamæri væri undanþegin virðisaukaskatti eður ei. Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt er vissar tegundir sölu á vinnu og þjónustu yfir landamæri teldist ekki skattskyld velta. Á það meðal annars við um ráðgjöf sérfræðinga, á borð við verkfræðina.

„Þjónusta [Carbfix] fælist einna helst í að selja erlendum aðilum sérstaka þjónustu við að hreinsa koltvíoxíð úr andrúmsloftinu. Viðskiptavinir [félagsins] keyptu af félaginu þjónustu sem veitt væri af verkfræðingum og öðrum sérfræðingum. Því væri sala kæranda sala á sérfræðiþjónustu til erlendra aðila sem hvorki hefðu búsetu né starfsstöð hér á landi. Þjónustan væri því nýtt að öllu leyti erlendis. Búnaðurinn sem [Carbfix] nýtti til að fjarlægja koltvíoxíð úr loftinu væri hér á landi og væri hann settur upp hér á landi í samstarfi við íslenska aðila. Í gegnum þennan búnað væri sérfræðiþjónustan seld til erlendra viðskiptavina,“ sagði í beiðni félagsins.

Skatturinn taldi þjónustuna veitta hér

Í áliti ríkisskattstjóra sagði að undanþáguákvæðum virðisaukaskattslaganna væri ætlað að fanga tilvik þegar þjónustan væri raunverulega nýtt á erlendri grund. Að mati ríkisskattstjóra virtist sem svo að þjónustan sjálf, það er niðurdælingin, ætti sér stað á Íslandi. Því væri það skilyrði ekki uppfyllt að salan ætti sér stað yfir landamæri enda þjónustan veitt hér. Af þeim sökum bæri að greiða virðisaukaskatt af sölunni.

Í kæru til yfirskattanefndar kom fram að kærandi myndi una þeirri niðurstöðu að sala til aðila sem ekki stunduðu atvinnurekstur væri virðisaukaskattskyld. Aftur á móti var endurskoðunar óskað hvað varðaði kaupendur í atvinnurekstri. Kolefnisjöfnunin, sem fylgdi kaupunum, væri nýtt í því ríki þar sem umrædd félög væru staðsett og þjónustan sjálf því nýtt ytra.

Í kærunni kom einnig fram að niðurstaðan kynni að setja túlkun á virðisaukaskattslögum í uppnám. Vissulega væri óumdeilt að starfsemin færi fram hér á landi en þjónustan sjálf, það er kolefnisjöfnunin, væri seld úr landi. Nánast allir kaupendur þjónustunnar væru erlendir aðilar í rekstri sem hefðu hvorki heimilisfesti hér né fasta starfsstöð.

„Teljist starfsemi kæranda vera nýtt af kaupanda á Íslandi sé staðan sú að hver og einn kaupandi þurfi að óska eftir endurgreiðslu á virðisaukaskatti til íslenskra skattyfirvalda með tilheyrandi kostnaði og vinnu. Bjóðist sambærileg þjónusta annars staðar t.d. í Evrópu, þá sé staðan önnur, enda þjónustan undanþegin virðisaukaskatti,“ segir í kærunni. Túlkun Skattsins hefði því leitt til þess að samkeppnisstaða Íslands hefði skekkst hvað þetta varðar.

Lögunum breytt árið 2018

Í niðurstöðu yfirskattanefndar voru nýlegar breytingar á lögum um virðisaukaskatt, frá árinu 2018, reifaðar. Í greinargerð með því frumvarpi kom fram að Ísland hefði ekki fylgt alþjóðlegri þróun hvað slíka skattlagningu varðar en þar sé miðað við svokallaða fjarlægðarreglu, það er að skattlagning í milliríkjaviðskiptum skuli eiga sér stað í þeirri lögsögu þar sem endanleg neysla og nýting þjónustu á sér stað.

„Kærandi hefur greint frá því að viðskiptavinir kæranda verði fyrst um sinn einna helst staðsettir í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Sviss, svo og að þeir myndu kaupa þjónustuna „til notkunar“ í þeim löndum sem starfsemi þeirra fer fram. Um þá notkun segir í kæru að hún miði að því að jafna kolefnisspor hlutaðeigandi aðila. Ekki verður séð á hvaða hátt þessari þjónustu kæranda verður jafnað til slíkrar þjónustu þar sem kaupandi hennar og seljandi þurfa eðli máls samkvæmt báðir að vera á sama stað þegar þjónustan er veitt,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Að mati nefndarinnar var hér um að ræða sölu á óhlutbundnum réttindum sem kaupendur gætu nýtt til að draga úr kolefnisspori sínu. Með vísan til þess var fallist á að salan gæti fallið undir tiltekið undanþáguákvæði virðisaukaskattslaganna, það er 1. mgr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Þá voru kæranda úrskurðaðar 380 þúsund krónur í málskostnað.