*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 6. apríl 2019 14:05

Þjónusta fleira fólk en býr á Íslandi

FusionHealth er bandarískt tækni- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í svefnheilsu. Hlaut viðurkenningu nýverið.

Ritstjórn
Sigurjón Kristjánsson, stofnandi FusionHealth.
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækið FusionHealth var á dögunum valið eitt af 50 mest lofandi fyrirtækjum sem bjóða upp á heilbrigðislausnir (e. 50 Most Promising Healthcare Solution Providers) fyrir árið 2019 af tímaritinu CIO Magazine. Fyrirtækið er stofnað í Bandaríkjunum og er Íslendingurinn Sigurjón Kristjánsson forstjóri fyrirtækisins og einn af stofnendum þess.

„FusionHealth er tækni- og þjónustufyrirtæki í svefnheilsu. Það má segja að við séum blanda af hugbúnaðar-, viðskiptalausnaog heilbrigðisfyrirtæki. Fyrirtækið nálgast hvaða þýði sem er á virði svefnheilsu, skimar þýðið fyrir öllum svefnvandamálum og kemur fólki í gegnum læknisfræðilega greiningu, á rétta eða viðeigandi meðferð og hjálpar því að viðhalda meðferðinni; svokölluð meðferðarheldni,“ segir Sigurjón.

Að sögn Sigurjóns er markmið FusionHealth að draga úr kostnaði fyrirtækja í Bandaríkjunum vegna lélegrar svefnheilsu starfsmanna sinna, með því að minnka slysatíðni og bæta frammistöðu starfsmanna. Fyrirtækin, sem bera allan kostnað af heilsutryggingum starfsmanna sinna, hafi á undanförnum árum áttað sig á því hvers virði heilsa starfsfólks er og að svefn hafi áhrif á frammistöðu, minnki slysatíðni og bæti heilsu. Til að ná þessu hafi FusionHealth þróað hugbúnaðarlausnir, aðferðafræði og sérþjálfað starfsfólk. Fyrirtækið styðjist svo við lausnir frá Nox Medical til að mæla svefninn.

„Við erum því með þessar hugbúnaðarlausnir á meðan Nox Medical er með mælitæknina. Með þessu tvennu setjum við svo saman eina mjög öfluga lausn, sem ekkert annað fyrirtæki býður upp á,“ segir hann.

Flutti til Bandaríkjanna til að stofna fyrirtæki

„Ég er búinn að vera í þessum geira í ansi mörg ár og var á sínum tíma hjá Flögu, þar sem ég stjórnaði tækni- og vöruþróun fyrirtækisins. Ég seldi mig út úr því árið 2005 og flutti til Bandaríkjanna. Þar stofnaði ég fyrirtækið FusionSleep ásamt félögum mínum úr Emory háskólanum í Atlanta. Upphaflega einblíndum við á svefnvandamál fólks sem býr á Atlanta-svæðinu,“ segir Sigurjón.

„Út frá þessu varð FusionHealth svo til en þar vinna nú 130 manns, meðal annars nokkrir Íslendingar. Fyrirtækið hefur vaxið gífurlega og er stærsta heildarsvefnprógramm utan sjúkrahúsa á Atlanta-svæðinu þar sem íbúar eru 7-8 milljónir. FusionHealth og FusionSleep eru systurfélög Nox Medical á Íslandi og við vinnum mjög náið með þeim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Heilsa svefn Fusion