Eðli framleiðslugeirans í Evrópu hefur verið að breytast undanfarin ár og eru þjónustutekjur sífellt stærri og mikilvægari þáttur í rekstri evrópskra framleiðslufyrirtækja. Kemur þetta fram í úttekt Financial Times, en þar er m.a. rætt við Árna Odd Þórðarson stjórnarformann Marels.

Hann segir að þjónusta við viðskiptavini skili nú um þriðjungi af veltu fyrirtækisins, en árið 2006 voru þjónustutekjur aðeins um 10% af veltunni. Það sem meira máli skiptir að mati Árna er að þetta séu stöðugar tekjur sem hægt sé að reiða sig á á erfiðum jafnt sem góðum tímum.

Í umfjöllun FT kemur fram að hjá mörgum farsælustu framleiðslufyrirtækjum álfunnar séu þjónustutekjur allt að helmingur veltunnar. „Gamla skilgreiningin á iðnaði er að breytast í grundvallaratriðum og það kemur Evrópu mjög vel,“ segir Peter Löscher, forstjóri Siemens.

Þjónusta er yfirgripsmikið hugtak en í þessu samhengi er átt við það þegar framleiðslufyrirtæki aðstoða viðskiptavini við að fá meira út úr þeim tækjum sem þeir kaupa. Þjónustan getur verið einföld, t.d. sala á varahlutum, en hún getur einnig verið mjög flókin eins og þegar tölvukerfi eru notuð tið að spá fyrir um hvenær þörf sé á viðhaldi. Með notkun slíkra kerfa er hægt að draga mjög úr niðurtíma.

Það skiptir ekki síður máli fyrir framleiðslufyrirtækin að framleiðni af þjónustu er töluvert hærri en af sölu á hefðbundnum framleiðsluvörum. Er í úttektinni tekið dæmi af sænska fyrirtækinu Atlas Copco, sem framleiðir námavinnslubúnað, en þjónustutekjur eru um 42% af veltu fyrirtækisins en 60% af hagnaði. Framleiðni af þjónustu getur verið allt að fjórföld framleiðni af sölu, samkvæmt rannsókn Bain & Co.