„Þegar tilraunaboranir hefjast, sem gæti gerst upp úr 2017, þá þarf til þess sérstaklega búna olíuborpalla. Í kringum þá er gríðarleg útgerð, bæði þjónustuskip, köfunarþjónusta, mannskapur á pallinum sjálfum, og síðan mikil vinna í landi við að meðhöndla sýni, mæla og greina niðurstöðurnar,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um umfang olíuleitar á Drekasvæðinu og ekki síður nýjum siglingaleiðum sem taldar eru opnast á milli Asíu og Evrópu í kjölfar bráðnunar á ísþekjunni.

Össur segir í samtali við Viðskiptablaðið að menn eigi að nálgast tækifærin á norðurslóðum af raunsæi. Staðreyndirnar sem liggi fyrir gefi jafnframt tilefni til hóflegrar bjartsýni.

„Á landgrunni Færeyja hafa menn leitað að olíu frá því um 2000 og þar hefur orðið til öflug þjónustuútgerð, sem Jóhann Dal, atvinnumálaráðherra þeirra, sagði mér á dögunum að aflaði þeim milljarða króna á ári í tekjur. Ef Íslendingar kæmust í þá aðstöðu að selja þjónustu við tilraunaboranir á Drekasvæðinu, norska svæðinu og við NA-Grænland, þá má ætla að árlegar tekjur okkar af því einu saman gætu numið tugum milljarða á ári.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.