Heildarútflutningstekjur á þjónustu á öðrum ársfjórðungi 2015 voru, samkvæmt bráðabirgðatölum, 149,0 milljarðar króna en innflutningur á þjónustu 94,3 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 54,7 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi en var jákvæður um 32,1 milljarð á sama tíma árið 2014 á gengi hvors árs. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands .

Þar segir að ferðaþjónusta hafi verið stærsti liðurinn í bæði inn- og útflutningi á þjónustu á ársfjórðungnum. Útflutt ferðaþjónusta var 54,6 milljarðar á meðan innflutt ferðaþjónusta nam 34,1 milljarði. Afgangur hennar nam því 20,4 milljörðum. Afgangur á sama ársfjórðungi árið 2014 nam 11,2 milljörðum á gengi hvors árs.

Útflutt samgöngu- og flutningaþjónusta nam 50,8 milljörðum á ársfjórðungnum á meðan innflutt samgöngu- og flutningaþjónusta nam 17,2 milljörðum. Afgangur nam því 33,6 milljörðum.

Önnur innflutt viðskiptaþjónusta nam 23,1 milljarði og útflutningur hennar 8,3 milljörðum á öðrum ársfjórðungi. Líkt og fyrri ár var halli mestur af þessum þjónustulið eða 14,8 milljarðar.