Á öðrum ársfjórðungi ársins var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 60,5 milljarða, en á sama tíma í fyrra var hann jákvæður um 64,6 milljarða. Ef hins vegar er horft til fyrstu sex mánuði ársins snýst dæmið við með hærri þjónustujöfnuði í ár en í fyrra, eða 101,2 milljörðum króna í stað 93,3 milljarða.

Heildartekjurnar af þjónustuútflutningu á öðrum ársfjórðungi námu 162,3 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands . Útgjöld vegna innfluttrar þjónustu voru svo 101,8 milljarðar, sem gerir jákvæðan þjónustujöfnuð upp á 60,5 milljarða eins og áður segir á tímabilinu.

Stærsti liðurinn í inn- og útfluttri þjónustu á ársfjórðungnum var ferðaþjónustan en af henni var afgangur upp á 34 milljarða. Mestur afgangur var þó af samgöngum og flutningum eða 43 milljarðar. Mestur halli var af annarri viðskiptaþjónustu eða 11,7 milljarðar.