Á árinu 2013 var þjónusta seld til útlanda fyrir tæpa 482,7 milljarða króna en þjónusta keypt frá útlöndum nam tæpum 334,9 milljörðum króna. Þjónustujöfnuður var því hagstæður um 147,8 milljarða króna á árinu. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar .

Mest var selt til útlanda af samgöngu- og flutningaþjónustu á árinu 2013 líkt og árið áður, en hún nam 39,5% af heildarútflutningi þjónustu. Næst kom sala á ferðaþjónustu og nam hún 131,6 milljörðum króna eða 27,3% af heildartekjum vegna þjónustuútflutnings.

Mest var keypt frá útlöndum af ferðaþjónustu og námu kaupin 103,5 milljörðum króna sem jafngildir 30,9% af heildarinnflutningi þjónustu. Næst á eftir ferðaþjónustu var mest keypt af annarri viðskiptaþjónustu, þar sem rekstrarleiga var stærsti liðurinn, eða fyrir 99 milljarða króna. Þar á eftir komu kaup á samgöngu- og flutningsþjónustu fyrir 59,8 milljarða króna.

Samgöngu- og flutningaþjónusta skiluðu 130,7 milljarða afgangi og ferðaþjónusta skilaði 28,1 milljarði. Hins vegar var 60,7 milljarða halli af annarri viðskiptaþjónustu.