Mikið verður um að vera í Borgarnesi í dag þegar N1 opnar nýja þjónustustöð sína. Húsnæðinu hefur verið umbyllt og sameinast undir einu þaki hefðbundin bensínstöð, verslun og veitingastaður. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1 og gítarleikari hljómsveitarinnar Heavy Metan, mun jafnframt stíga á stokk í tilefni dagsins og taka nokkur lög. Heavy Metan er húsband N1.

Í fréttatilkynningu frá N1 segir að þeir hafi lagt mikið í hönnun og frágang og leggi mikla áherslu á að mæta þörfum viðskiptavina: „Má í raun segja að stöðin sé þjónustustöð framtíðarinnar þar sem áratuga löng reynsla er nýtt til að tryggja þá þjónustu sem fólk er að sækjast eftir,“ segir í fréttatilkynningunni frá N1.

Og það verður mikið stuð í Borgarnesi í dag. Dagskráin verður fjölbreytt og ætti að vera spennandi fyrir alla aldurshópa. Hoppukastalar, andlitsmálning, skólahreysti braut, blöðrur og fleiri uppákomur. Handverkskynning úr héraði, smakk – sala frá sveitamarkaðnum Ljómalind og beint frá bónda.

Páll Brynjarsson sveitarstjóri og Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1 flytja svo tölu og opna stöðina formlega klukkan 16. Klukkan 16:30 er búist við Óskari Jakobssyni hlaupara sem hleypur til Ísafjarðar til að vekja athygli á aðstæðum langveikra barna .  N1 stefnir að því að taka vel á móti hlauparanum og hvetja hann áfram.

Þjónustustöð N1 í Borgarnesi er sú stærsta  við Hringveginn sem N1 rekur. Félagið tók yfir rekstur Hyrnunnar í desember á síðasta ári og framkvæmdir við nýja þjónustustöð hófust í byrjun árs og hafa gengið vel. Fastir starfsmenn þjónustustöðvarinnar verða um 40 yfir mesta annatímann og verður opnunartími frá klukkan 8 til 23:30 alla daga vikunnar.