Allt bendir til þess að hreint gjaldeyrisinnflæði vegna þjónustuviðskipta verði umtalsvert meira en vegna vöruskipta í ár, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.

Innflæði vegna þjónustuviðskipta hefur vaxið talsvert á sama tíma og vöruskipti við útlönd hafa reynst óhagstæð. Samkvæmt greiningardeildinni er hraður vöxtur i gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum eitt af því sem skýrir þessa þróun. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað samfellt milli ára allt frá því í október 2010 og nýlegar tölur sýna að þessi vöxtur heldur áfram.

Vöruskiptin í júni voru hins vegar óhagstæð um 7,7 milljarða , en það er mesti halli í vöruskiptum frá miðju ári 2008. Það er fyrst og fremst rýr útflutningur sem skýrir ofangreinda halla á vöruskiptum. Nam verðmæti vöruútflutnings 128,5 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, og hefur það ekki verið minna síðan á öðrum fjórðungi ársins 2009. Útflutningsverðmæti sjávarafurða og iðnaðarvara hefur dregist saman. Verðmæti vöruinnflutnings nam alls tæpum 141 milljarði á öðrum ársfjórðungi sem er svipað og á sama tímabili í fyrra.

Þetta þýðir að þjónustuútflutningur gegnir orðið lykilhlutverki við að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, að því er fram kemur í greiningunni.