*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 19. nóvember 2019 12:35

Þögn ekki góð frammi fyrir grályndi

Forseti Íslands segir engum til góðs að þegja þunnu hljóði þegar óréttlæti og grályndi blasir við.

Ritstjórn
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson tók við trúnaðarbréfi frá nýjum sendiherra Namibíu, George Mbanga Liswaniso, þann 29. október sl..

„Heiður þeim sem heiður ber. Að sama skapi er þó engum til góðs að skapa falsmynd eða þegja þunnu hljóði þegar óréttlæti og grályndi blasir við. Ýmsar sögur eru til af erlendum stórrisum, sem hösluðu sér völl á nýjum stað og fóru offari, léku innfædda grátt, með blekkingum, svikum og mútum. Þannig framferði er auðvitað óverjandi.“

Þannig mælir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í ávarpi við afhendingu íslensks álorðasafns við athöfn í álverinu í Straumsvík þann 15. nóvember síðastliðinn. Þó forsetinn nefni ekki Samherjamálið berum orðum má augljóst heita að orð hans vísa til þess. Mannlíf greinir fyrst frá þessu í morgun. 

„Við Íslendingar verðum að geta borið höfuðið hátt í útlöndum, ekki síst við sem höfum notið trausts til trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð. Við viljum eiga okkar flaggskip og lofa þá sem þar eru á stjórnpalli, fólk í heimi menningar og mennta, íþrótta og lista, fólk í heimi hátækni og nýsköpunar, fólk í heimi iðnaðar og útvegs. Lengi höfum við stært okkur af forystuhlutverki til sjávar, þekkingu okkar og reynslu og vilja til að vinna með öðrum, öllum til hagsbóta. Þetta hef ég gert nýlega, svo dæmi séu tekin, í heimsóknum ytra og þegar ég tók á móti nýjum sendiherra Namibíu eins og lesa má í frétt á heimasíðu embættisins: „Loks var rætt um fiskveiðar undan ströndum Namibíu og framtíðarhorfur þar í þágu heimamanna“, og var þá vísað til þróunarsamvinnu þar ytra,“ sagði Guðni Th. og bætir við:

„Kæru landar: Ef við, sem komum fram í þágu Íslands, eigum að geta lofað frumkvæði og dugnað í útvegi og öðrum greinum íslensks atvinnulífs, verðum við að sjá í verki að þar sé unnið af heilindum. Þeirri heildarmynd er vel hægt að halda við, sé vilji fyrir hendi.“