Jónas Þór Guðmundsson hrl. var í síðustu viku kjörinn formaður Lögmannafélags Íslands og tekur við embættinu af Brynjari Níelssyni hrl. sem gegnt hefur því sl. tvö ár. Jónas Þór sigraði Evu Bryndísi Helgadóttur með 181 atkvæði gegn 86.

Jónas Þór hefur verið mjög virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins í mörg ár. Hann sat í stjórn Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði í fjögur ár, 1994-98, og var formaður í eitt ár, 1996-97. Þá var hann jafnframt varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) undir formennsku Ásdísar Höllu Bragadóttur á árunum 1997-99.

Hann bauð sig fram til formanns SUS á sambandsþingi sem fram fór í Vestmannaeyjum árið 1999. Þar tapaði hann fyrir Sigurði Kára Kristjánssyni, sem síðar var þingmaður og nú, eins og Jónas Þór, starfandi lögmaður. Sigurður Kári fékk 211 atkvæði en Jónas Þór 143 atkvæði.

Á sambandsþingum SUS fer formannskjör fram á sunnudegi og lokadegi þingsins. Stuðningsmenn Jónasar Þórs höfðu undirbúið komu fjölmargra á sunnudeginum en vegna þoku gátu vélar Íslandsflugs ekki lent í Eyjum. Stuðningsmenn Sigurðar Kára komust hins vegar til Eyja með Fokker vélum Flugfélags Íslands. Það er því óhætt að segja að þoka hafi kostað Jónas Þór formannsembættið í SUS.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins studdi Sigurður Kári þó dyggilega við bakið á Jónasi Þór í formannskjörinu í lögmannafélaginu í síðustu viku og hvatti aðra til að gera slíkt hið sama.

Nánar er fjallað um ævi og störf Jónasar Þórs í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.