*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 26. júlí 2021 12:24

Þoli ekki andstæðar skoðanir

Brynjar Níelsson segir að skrif Gísla Marteins beri „greinileg merki um mikla andúð og óþol gagnvart andstæðum skoðunum“.

Ritstjórn
Brynjar Níelsson og Gísli Marteinn Baldursson
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson hefur sent „gamla flokksbróður sínum“ Gísla Marteini Baldurssyni pillu vegna „Tvitter“ færslna hans. „Ég ætla ekki að halda því fram að Gísli Marteinn sé uppfullur af hatri en hann skrif hans bera greinileg merki um mikla andúð og óþol gagnvart andstæðum skoðunum,“ skrifar Brynjar á Facebook.

Brynjar vitnar fyrst í röð tísta Gísla Marteins fyrr í mánuðinum þar sem hann sagði m.a. annars að „woke“ skoðanir knattspyrnumanna, sem birtust til að mynda í krjúpandi kné fyrir leiki, fara fyrir brjóstið á íhaldsmönnum.

„Mátti helst skilja á Gísla Marteini að allir þeir sem ekki vilja vera í ESB væru forpokaðir íhaldsmenn og stæðu gegn mannréttindum og alþjóðasamstarfi. Vandamálið er bara það að þetta woke lið er ekkert frjálslynt og örugglega ekkert betra en annað fólk,“ segir Brynjar.

Brynjar segir að óhjákvæmilegur fylgifiskur frjálslyndis sé umburðarlyndi, þar á meðal að umbera fólk með aðrar skoðanir í stað þess að útiloka það. „Mest áberandi woke fólkið“ sé hins vegar uppfullt af pólítískri rétthugsun „sem er annað nafn yfir ofstæki“.

„Því finnst að mannréttindi, ekki síst tjáningarfrelsið, snúist bara um þeirra skoðanir og athafnir. Sjálfhverfan er algjör. Því finnst allt leyfilegt í nafni eign réttlætis, jafnvel víkja til hliðar reglum réttarríkisins.“

Brynjar segir hæfilega íhaldssemi og hóflega þjóðerniskennd lykilinn að stöðugleika, farsæld og framþróunar hvers samfélags. Það dugi þó skammt til ef frelsi einstaklingsins sé ekki í hávegum haft. Það sama eigi við um frelsi í viðskiptum en alþjóðasamstarf sé grunnurinn í velferð hvers samfélags.

„Þetta vitum við sem stundum eru uppnefndir sem íhaldsmenn og ekki fastir í búbblu upp í Efstaleiti.“

Ef ekki ofstækisfullt þá stíflað af frekju

Gísli Marteinn sagði á Twitter í gær að mikilvægi Ríkisútvarpsins sæist á því hvað „fólkið með allar verstu skoðanir landsins hata stofnunina mikið. Alveg einsog hjá öfgahægri flokkum í Evrópu, vill þetta fólk ekki leggja almannaútvarpið niður - það vill bara breyta því hvaða skoðanir heyrast þar og hverjar ekki“.

Brynjar segir að RÚV verði ekki meira almannaútvarp en aðrar útvarpsstöðvar þó ríkissjóðir eigi allt hlutaféð. Hann bætir við að einkennandi sé fyrir „woke“ fólkið að líta svo á að þeir sem eru með aðrar skoðanir séu hatursfólk.

„Ég hata ekki RUV þótt ég telji það úrelt í núverandi mynd og telji ekki forsvaranlegt að láta almenning greiða marga milljarða á ári svo vinir og vandamenn þar geti verið á einkaflippi og farið einungis að lögum þegar hentar. Ég hata heldur ekki ÁTVR þótt ég telji það úrelt kompaní og að smásöluverslun sé betur fyrir komið hjá einkaaðilum, eins og annar samkeppnisrekstur.“

„Ég ætla ekki að halda því fram að Gísli Marteinn sé uppfullur af hatri en hann skrif hans bera greinileg merki um mikla andúð og óþol gagnvart andstæðum skoðunum. Slíkt fólk getur ekki skreytt sig með fjöðrum frjálslyndis. Ef það er ekki beinlínis ofstækisfullt þá er það að minnsta kosti stíflað af frekju,“ segir Brynjar að lokum.