Áfengisframleiðandinn Pure Spirits í Borgarnesi hefur sett á markað Grábrók sem er átta ára gamalt skoskt viskí blandað íslensku vatni. Er þetta fyrsta eigin vörumerki sem Pure Spirits hefur gefið út en hingað til hefur félagið séð um framleiðslu á ýmsu sterku áfengi fyrir viðskiptavini sína. Reyka Vodka og Martin Miller's ginið eru dæmi um áfengistegundir sem framleiddar eru í eimingarverksmiðju Pure Spirits í Borgarnesi.

Viskíið Grábrók er framleitt í Skotlandi eftir skoskum hefðum, áður en það er flutt til Íslands og blandað tæru íslensku vatni úr vatnslindinni Grábrók í Borgarfirði. Magnús Arngrímsson, framkvæmdastjóri Pure Spirits, segir að með því að tvinna saman aldagamlar margverðlaunaðar viskíhefðir frá Skotlandi og íslenskt vatn, sem njóti náttúrulegrar síunnar í gegnum þúsund ára gamalt hraun, sameinist það besta frá báðum löndum. Þessi blanda verði svo að hinu mjúka og ljúfa viskíi, Grábrók.

„Við höfum í gegnum tíðina séð að íslenska vatnið, sem er að okkar mati besta vatn í heimi, blandast vel með sterku áfengi og hafa vörur framleiddar í verksmiðju okkar í Borgarnesi fengið viðurkenningar og unnið til verðlauna víða um heim. Við framleiðum um 30 tegundir af vinsælu sterku áfengi sem selt er víða um heim. Okkur hefur lengi dreymt um að búa til virkilega gott viskí með íslensku vatni og koma því á markað. Fyrir tæpum 10 árum ákváðum við láta draum okkar verða að veruleika og fórum í þá vinnu að þróa Grábrók."

Þolinmæðisverk að framleiða viskí

Segja má að máltækið þolinmæði þrautir vinnur allar segi allt sem segja þarf um þróunarferli Grábrókar, enda er viskíinu leyft að þroskast í átta ár á tunnum til að ná fram þeim gæðum sem stefnt var að. Landsmönnum gefst þegar kostur á að smakka viskíið, þar sem það lenti í hillum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á dögunum.

„Ef maður ætlar að búa til viskí þá þarf maður gjöra svo vel að geta beðið," segir Magnús, sem líkir ferlinu við mjög langa meðgöngu. „Það hefur þurft mikla þolinmæði í þetta vandasama verk sem það að þróa gott viskí er. Viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum og því mikið gleðiefni að geta loksins boðið upp á Grábrók í Vínbúðunum."

Magnús segir að vonir standi til að viskíið fari í sölu sem víðast um heim en fyrsta skrefið sé heimamarkaðurinn.

„Við einbeitum okkur nú að þessum helstu sölustöðum hér á landi, sem eru Fríhöfnin og Vínbúðin. Þegar viskíframleiðsla er annars vegar er mikilvægt að hafa sýn til langs tíma, enda er mikil áskorun að gera plön átta ár fram í tímann. Við höfum gert metnaðarfullar áætlanir inn í framtíðina og hluti að því er að byrja á að byggja sig upp á heimamarkaði áður en lengra er haldið."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .