Líkt og alkunna er mun markmið sóttvarnalæknis með samfélagslegum takmörkunum hafa verið að vernda heilbrigðiskerfið. Mikið hefur verið rætt um þolmörk Landspítala og afkastagetu hans en óskýrt hefur verið hvar þolmörkin liggja, hvers vegna ekki hefur tekist að auka afkastagetu til þess að ráða við verkefni faraldursins án þess að kallað sé eftir samfélagslegum takmörkunum og hvaða afleiðingar það hefði ef álag fer yfir títtnefnd þolmörk.

Afkastageta gjörgæslu Landspítalans hefur verið nefnd sem viðkvæmasti hlekkurinn. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar, sagði á fundi velferðarnefndar Alþingis í síðustu viku að fræðilega gæti gjörgæsla verið með 45 einstaklinga í rúmi og öndunarvél, en að skortur væri á gjörgæslusérhæfðum mannskap þannig að grípa þyrfti til verulegra breytinga í mönnunarlíkani spítalans áður en til þess kæmi.

Gjörgæsla skalanleg

Þolmörk gjörgæslu verða ekki meitluð í stein. Æskilegast er að heilbrigðistarfsfólk með gjörgæslufærni manni gjörgæslu, en takist það ekki er hún mönnuð eftir þörfum með starfsfólki án gjörgæslusérhæfingar. Þannig er reynt að kalla til starfsmenn sem næst sérgreininni en eftir því sem leitað er lengra í óskylda starfsemi þyngist róðurinn. Hingað til mun hafa dugað að kalla til fólk af sviði svæfingalækninga, þá bæði innan Landspítalans og utan hans. Gjörgæsla spítalans er þannig stækkuð og aðlöguð eftir þörfum hverju sinni, líkt og gengur og gerist á sjúkrahúsum erlendis.

Aðstæður hér á landi eru þó frábrugðnar flestum öðrum löndum að því leyti að hér er aðeins eitt stórt sjúkrahús með víðtækt hlutverk, þar á meðal bráðamóttöku, en flæðið í gegnum hana skapar flækjustig í viðureigninni við faraldurinn umfram sjúkrahús ytra sem eru án slíks flæðis.

Forgangsröðun sjúklinga ólíkleg sviðsmynd

Að sækja fólk af öðrum sviðum spítalans hefur tvíþættar afleiðingar; annars vegar þá að þjónusta á gjörgæslu verður á lægra þjónustustigi (e. suboptimal) vegna mönnunar með starfsfólki án gjörgæslufærni og hins vegar að þjónustustig spítalans á öðrum sviðum lækkar, vegna þess að mannskapur þaðan sinnir öðrum verkefnum auk þess sem að önnur verkefni innan spítalans sem gætu þurft stuðning gjörgæslu frestast. Áhrifa þessara gætir meira eftir því sem sjúklingum á gjörgæslu fjölgar umfram það sem starfsfólk með gjörgæslufærni getur annað.

Sú sviðsmynd að sjúklingar fái alls ekki spítala- eða gjörgæsluþjónustu þykir fjarlæg í dag en vakti meiri áhyggjur fyrr í faraldrinum þegar óvissan var meiri, bólusetning ekki til staðar, afbrigði öllu skæðara og ástand í sumum löndum óviðráðanlegt. Ef svo ólíklega færi að fjöldi gjörgæslusjúklinga færi umfram alla mögulega getu sjúkrahússins til skölunar yrði fyrst leitast eftir því að senda sjúklinga á sjúkrahús erlendis áður en til forgangsröðunar á gjörgæslu kæmi til.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .