Stýrivextir haldast óbreyttir og Seðlabankinn hefur ákveðið að hefja á ný reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði. Þetta var það helsta sem kom fram í yfirlýsingu Peningastefnunefndar í höfuðstöðvum Seðlabankans í morgun. Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynnti tillögurnar ásamt Arnóri Sighvatssyni, aðstoðarseðlabankastjóra. Spurður að því hvort aukin gjaldeyriskaup bankans séu ekki skýr merki um að krónan sé of sterk segir Már að svo sé ekki. Gengi krónunnar sé nálægt jafnvæginu að sögn hans en þó sé ljóst að erfitt verði að þola mjög mikla hækkun til viðbótar.

Tölur um hagvöxt fyrsta ársfjórðungs gefa til kynna  að hann sé töluvert veikari en við var búist. Már segist þó nokkuð öruggur um að þær tölur hafi ekki mikið að segja um hagvöxt ársins í heild. Veikari hagvöxtur þennan ársfjórðunginn skýrist einkum af miklum innflutningi þjónustu að sögn Más og gæti jafnvel verið vísbending um frekari umsvif og jafnvel frekari útflutning í framhaldinu.

VB Sjónvarp ræddi við Má.