*

miðvikudagur, 27. maí 2020
Erlent 1. október 2019 15:21

Thomas Cook kostar Tyrki

Gjaldþrot Thomas Cook hefur reynst þungt fyrir tyrkneskan ferðaþjónustuaðila.

Ritstjórn
Líkt og hér á landi er ferðaþjónusta ein stærsta útflutningsgrein Tyrklands.
epa

Gjaldþrot ferðaþjónusturisans Thomas Cook mun koma til með að kosta tyrkneska ferðaþjónustuaðila yfir 350 milljónir evra eða því sem nemur um 47 milljörðum íslenskra króna samkvæmt frétt Reuters. Þetta er mat tyrknesku ferðamálastofunnar sem greindi einnig frá því að ómögulegt væri að upphæðin muni fást greidd á næstu misserum. 

Thomas Cook sem var elsta ferðaskrifstofa heims varð gjaldþrota í síðustu viku sem leiddi til þess að yfir hálf milljón ferðamanna voru strandaðir um allan heim. Ferðaþjónustu ráðuneyti Tyrklands hefur greint frá því að vinna sé hafin með fjármálaráðuneyti landsins við að bæta við fjármögnunarpakka sem er ætlaður að þeim fyrirtækjum sem urðu hvað verst fyrir gjaldþrotinu. 

Að mati ferðamálastofu landsins þarf hins vegar að bjóða mun stærri pakka en stjórnvöld hyggjast nú bjóða upp á og er upp á um 50 milljónir evra. Þá ættu lánin einnig að vera með lengri lánstíma, lægri vexti auk þess sem ekki ætti að þurfa að borga af þeim næstu þrjú árin og þá ætti sérstaklega að leggja meiri áherslu á minni fyrirtæki við veitingu lánanna.  

Stikkorð: Thomas Cook Tyrkland