Þeir Thomas Skov Jensen, forstöðumaður áhættustýringar, og Halldór Karl Högnason, forstöðumaður fjárstýringar, seldu í dag hlutabréf í Kviku fyrir rúmar 67 milljónir króna samanlagt. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar .

Thomas Skov seldi tvær milljónir hluta, á genginu 22,45 krónur, í gegnum félag sitt, Millicent Capital ehf. Hann selur því hlutabréf fyrir 44,9 milljónir króna í Kviku en eftir viðskiptin á hann um 1,3 milljónir hluta í gegnum félagið, auk áskriftarréttinda að rúmlega 3,3 milljónum hluta, einnig í gegnum félagið.

Halldór Karl seldi eina milljón hluta í félaginu, á sama gengi, í gegnum félagið Valshöfða ehf. sem er að fullu í hans eigu. Hann seldi því bréf fyrir 22,45 milljónir króna en eftir viðskiptin á hann samtals um 3,1 milljón hluti í félaginu, þar af 3 milljónir í gegnum félagið, auk áskriftarréttinda fyrir fjórar milljónir hluta, jafnframt í gegnum félagið.

Ekki er langt síðan að þeir Thomas og Halldór áttu í umtalsverðum viðskiptum með bréf bankans en í lok maí var tilkynnt um tugmilljóna viðskipti stjórnenda Kviku .