Þingflokkur Hreyfingarinnar ætlar að óbreyttu að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina að nýju á morgun þar sem stjórnarskrármálið hefur tafist. Ef af verður er þetta í annað sinn á innan við mánuði sem Hreyfingin lýsir yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lagði 20. febrúar síðastliðinn fram tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina vegna stjórnarskrármálsins. Í greinargerð með tillögunni þá sagði að hún væri til komin vegna þess að ríkisstjórnin geti ekki „afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.“ Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sögðust báðir ætla að styðja tillöguna á sínum tíma. Þór dró hins vegar tillöguna til baka.

Ástæðan fyrir vantrauststillögunni nú er sú sama og áður en Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði um síðustu helgi útilokað að klára stjórnarskrármálið í núverandi mynd fyrir þinglok. Hann hefur talað fyrir því að ákveðinir þættir verði teknir út og reynt að ljúka þeim fyrir þinglok en fresta öðrum þáttum málsins fram að næsta þingi.

Fréttablaðið segir í dag að forystumenn stjórnmálaflokkanna muni funda í dag og freista þess að ná lendingu í málinu.