Íslenska hátæknifyrirtækið Thor Ice Chilling Solutions hefur landað samningi við LDC Group, einn stærsta kjúklingaframleiðanda Evrópu. Með samningnum hefur ískrapatækni Thor Ice verið komið upp í VDK verksmiðjunni í Frakklandi, en hún framleiðir um milljón kjúklinga á viku.

Þorsteinn Ingi Víglundsson, framkvæmdastjóri Thor Ice, segir áfangann marka ákveðin tímamót. Fyrirtækið sé nú komið af sprotastigi yfir á vaxtarstig. „Við ætlum að sækja okkur meira fjármagn og finna öfluga samstarfsaðila sem geta hjálpað okkur að koma lausninni inn í helstu verksmiðjur Evrópu. Í framhaldi teljum við lausnina eiga erindi á aðra markaði t.d. Suður- og Norður-Ameríku, en einnig Asíu. Vandamálið er alþjóðlegt, en fyrst þarf að ná skýrum árangri á þeim mörkuðum sem eru okkur næstir.“

Thor Ice velti 180 milljónum króna í fyrra, en til samanburðar nam velta 170 milljónum króna árið áður. Tap síðasta árs nam 8,5 milljónum króna og dróst saman um 13,5 milljónir frá fyrra ári.

Fyrirtækið var formlega stofnað árið 2014 og segir Þorsteinn reynslu og breidd teymisins vera lykilbreytu í árangri Thor Ice. „Teymið samanstendur í dag af níu öflugum einstaklingum með 2 áratuga reynslu af þróun kælimiðla ásamt sterkum hópi ráðgjafa, m.a. Dr. Jakobi K. Kristjánssyni. Við erum að leysa mikilvægt vandamál fyrir matvælaiðnaðinn, með nýstárlegum aðferðum og ættum að geta orðið aðlaðandi vinnustaður fyrir metnaðarfullt fólk, sem hefur áhuga á alþjóðlegri markaðssókn.“

Pétur Guðjónsson, sem áður gegndi stöðu alþjóðlegrar sölu og þjónustu hjá Marel, tók jafnframt sæti í stjórn félagsins árið 2021, en hann var meðal fyrstu starfsmanna Marel og tók þátt í uppbyggingu félagsins yfir langt skeið. Að sögn Þorsteins hefur Ísland reynst frábær þróunarmarkaður. „Matfugl keypti kerfi af okkur fyrir fimm árum, áður en það var endanlega tilbúið, þökk sé þeirra stuðningi og þolinmæði gátum við þróað lausn sem gerði þeim kleift að bæta nýtingu hráefnis á sama tíma og framleiðsla var aukin um 30%.“ Í gegn um tíðina hefur félagið einnig hlotið styrki úr Tækniþróunarsjóði Rannís og frá Evrópusambandinu. Árið 2019 var Thor Ice boðið í hóp rísandi stjarna í matvælaiðnaði (e. Rising Food Stars Organisation) af nýsköpunarsetri matvæla í Evrópu (EIT Food). Árið 2020 tryggði félagið sér FTI styrk (Fast track to innovation) úr Horizon 2020 sjóðum Evrópusambandsins. Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið NEFCO hefur einnig veitt félaginu lánsfjármögnun og var Thor Ice tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2021.“

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.