Þór Sigurgeirsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi fyrir næsta kjörtímabil, en prófkjör verður haldið þann 26. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þór var bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi á árunum 2006 til 2010 og hefur setið í nefndum á vegum bæjarins. Hann er kvæntur Maríu Björk Óskarsdóttur sviðsstjóra hjá Seltjarnarnesbæ og eiga þau fjögur börn á aldrinum 12 til 24 ára. Bakgrunnur Þórs kemur úr sölu- og markaðsmálum, en hann hefur alla tíð starfað í þeim geira, lengst af við vátryggingar fyrirtækja og einstaklinga. Undanfarin ár hefur hann starfað við sölu- og verkefnastjórn hjá Rými ehf.

Þór segir í tilkynningu að öll málefni bæjarfélagsins séu áherslumál. Þó að Seltjarnarnesbær sé nærri fullbyggður þá standi bærinn frammi fyrir fjölda áskorana í takt við nýja tíma. Lögbundin verkefni grunnþjónustunnar verði ávallt í fyrsta sæti og skiptir útsjónarsemi og ráðdeild í fjármálum þar öllu máli.

Þór er mikill Seltirningur og hefur alist upp í Gróttu í gegnum handbolta og fótbolta. Hann býður sig nú fram, 20 árum eftir að faðir hans lét af embætti, en hann var í sveitar- og bæjarstjórn samfellt í 40 ár.

Barátta um oddvitasætið

Það stefnir í fjögurra hesta kapphlaup um oddvitasætið en Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs Seltjarnarness, lýsti formlega yfir framboði sínu í oddvitasætið fyrir um mánuði síðan líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Auk þeirra gefa þau Ragn­hild­ur Jóns­dótt­ir vara­bæj­ar­full­trúi og Svana Helen Björns­dótt­ir verk­fræðing­ur kost á sér í 1. sætið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið við stjórnvölinn á Seltjarnarnesi og er því líklegt að oddviti Sjálfstæðismanna verði nýr bæjarstjóri Seltjarnarness til næstu fjögurra ára.