Þóra Arnórsdóttir, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, hefur tilkynnt um framboð sitt til embættis forseta Íslands. Þóra tilkynnti formlega um framboð sitt í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag.

Þóra sagðist alls ekki of ung til gegna embættinu og að henni hefði aldrei dottið í hug að bjóða sig fram nema fullviss um hún gæti sinnt embættinu með sóma. Hún sagði vera þörf fyrir nýjan tón í samfélaginu, íslensk þjóð gæti ekki horft endalaust um öxl. Horfa þyrfti á það sem sameinaði þjóðina, ekki það sem sundraði henni.

Í yfirlýsingu frá Þóru segir meðal annars:

„Það þarf samstöðu á Alþingi til að leiða til lykta þau ágreiningsmál sem brenna á þjóðinni. Þótt forsetinn taki ekki afstöðu til pólitískra deilumála á hann ekki að vera áhrifalaus. Forsetinn er eini þjóðkjörni embættismaðurinn og honum ber að fylgjast grannt með samfélagi sínu og vera öryggisventill þegar nauðsyn krefur. Forsetinn verður að tryggja að þjóðin fái undanbragðalaust að hafa lokaorðið í stórum málum sem snerta fullveldi hennar og sjálfstæði.

Mikil áskorun felst í því að gegna embætti forseta Íslands. Ég er tilbúinn að axla þá ábyrgð og takast á við þau verk sem forseti verður að sinna. Að vandlega íhuguðu máli hef ég tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands.“