Þóra Margrét Pálsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri RÚV. Hún hefur starfað sem mannauðsstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands frá 2009 og hún hefur verið hópstjóri mannauðs- og samskiptamála sviðsins frá 2013.

Einnig starfaði hún á starfsmannasviði Háskóla Íslands árin 2003-2006, en í millitíðinni starfaði hún meðal annars sjálfstætt um mannauðsmál og vinnusálfræði, auk ýmissa verkefna bæði hér á landi og í Berlín þar sem hún bjó.

Þóra Margrét nam sálfræði í Berlín í Þýskalandi, bæði á grunn og framhaldsstigi. Lauk hún meistaranámi í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði árið 2002. Auk þess lagði hún stund á viðbótarnám í markþjálfun við Deutsche Psychologen Akademie í Berlín 2005-2006.