*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Fólk 27. júlí 2013 21:35

Þóra Tómasdóttir: Langar sumarbústaðaferðir eru pyntingar

Ekkert er ömurlegra en að ferðast með leiðinlegu fólki og þá ber hæst að nefna óhamingjusöm pör að sögn Þóru.

Lára Björg Björnsdóttir

Þessa dagana eru margir í fríi. Facebook logar af myndum af fólki grillandi pylsur í fallegum dal eða börnum í sólbaði á Spáni. Það er svo gaman. Það er svo mikið fjör. Fólk skemmtir sér konunglega. Fólk er duglegt að skipuleggja hið fullkomna frí. En hvernig ætli uppskriftin að ömurlegu fríi yrði? Ef einhverjum dytti í hug að hanna algjörlega morkið frí? Þar sem allt fer norður og niður?

„Lykilatriði er að vanda val á ferðafélögum,“ segir Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Nýs Lífs, en Viðskiptablaðið leitaði til hennar með uppskriftina að vondu fríi. „Ekkert er ömurlegra en að ferðast með leiðinlegu fólki og þá ber hæst að nefna óhamingjusöm pör. Ekki spillir fyrir ef þau eiga barn, jafnvel börn, með agavandamál.“

Þóra bendir einnig á annað gríðarlega mikilvægt atriði þegar plana skal ömurlegt frí. „Ef auka á spennuna er líka tilvalið að blanda foreldrum sínum í málið. Sumarbústaðir eru kjörnir áfangastaðir. Undankomuleiðir eru engar og nándin verður sem mest. Langar sumarbústaðaferðir eru pyntingar í mínum huga og því mæli ég að minnsta kosti með tveggja til þriggja vikna dvöl. Sólarstrendur, til dæmis á Krít eða Tene, eru auðvitað góður kostur líka þar sem hægt er að kaupa Moggann og fá matseðla á dönsku og íslensku.“

En hefur Þóra farið í ömurlegt frí? „Ég man sem betur fer ekki eftir mörgum misheppnuðum fríum en það er ástæða fyrir því að mér leiðast sumarbústaðaferðir.“ Nú þegar við vitum hvernig plana skal hið vonlausa frí þá væri gaman að heyra tillögu Þóru að skemmtilegu fríi. „Ég vil sjá sem mest og ferðast til staða sem koma mér á óvart. Óplanað og spontant ferðalag hentar mér best. Góður ferðafélagi er „ligeglad“ og getur tekist á við það þó að hótelið sé hrikalegt eða maturinn vondur. Hann kaupir bara bjór í staðinn.“