Þórarinn Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eignastýringar Kaupþings, hefur verið dæmdur til að greiða Arion banka 27 milljónir vegna persónulegra ábyrgða á lánum sem hann fékk vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi fyrir bankahrun.

Málatilbúnaður Arion banka fyrir dómi byggði á því að yfirlýsing stjórnenda Kaupþings um afléttingu persónulegra ábyrgða tæki ekki til láns Þórarins þar sem andvirði þess hefði ekki verið varið til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi hf.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að í dómi réttarins frá 23. maí 2013 í máli nr. 34/2013 hefði því verið slegið föstu að yfirlýsingin tæki aðeins til lána sem notuð höfðu verið til að kaupa hluti í bankanum. Af gögnum málsins yrði ráðið að Þórarins hefði fengið lánsféð til frjálsrar ráðstöfunar og að það hefði margsinnis skipt um hendur áður en Þórarinn keypti hlutabréf í bankanum fyrir nær þrisvar sinnum hærri fjárhæð en nam lánsfjáræðinni.

Var því talið að Þórarinn hefði ekki sannað að uppfyllt hefði verið það skilyrði niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar hans samkvæmt yfirlýsingunni að lánsféð hefði verið nýtt til hlutafjárkaupa í bankanum. Ekki var heldur fallist á annan málatilbúnað Þórarins.

Með dómi sínum sneri Hæstiréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði sýknað Þórarinn af kröfu Arion banka.