Aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, er vaxtahaukurinn meðal meðlima peningastefnunefndar bankans, en Gylfi Zoega er vaxtadúfan, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Í þessu sambandi er rætt um þá sem hauka sem frekar vilja hækka vexti og dúfur eru þeir sem frekar vilja lækka vexti.

Segir í Morgunkorninu að svo virðist sem nýjasti meðlimur nefndarinnar, Katrín Ólafsdóttir, sé talsvert minni hávaxtasinni en forveri hennar, Anne Sibert, og megi því álykta að peningastefnunefndin hafi tilhneigingu til að ákveða lægri vexti en áður eftir þau skipti. Þetta megi ráða af yfirliti yfir atkvæðagreiðslur peningastefnunefndar árið 2012 í nýútkominni ársskýrslu Seðlabankans.

Á síðasta ári tók peningastefnunefndin átta sinnum ákvörðun um stýrivexti Seðlabankans. Nefndin var aðeins samhljóma í ákvörðun sinni í tvö skipti af þessum átta, og í báðum þeim tilvikum hefði raunar einn nefndarmaður fremur kosið aðra niðurstöðu þótt viðkomandi greiddi atkvæði með tillögu Seðlabankastjóra.

Þórarinn G. Pétursson var oftast ósammála vaxtatillögu Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra af meðlimum nefndarinnar. Vildi Þórarinn hækka vexti talsvert hraðar á fyrri hluta síðasta árs en raunin varð, og á seinni hluta ársins vildi hann halda vaxtahækkunarferlinu áfram í þau skipti sem óbreyttir vextir urðu fyrir valinu. Er þetta í samræmi við skoðun Þórarins árin á undan, sem fremur hneigðist til hærri vaxta en urðu fyrir valinu hverju sinni.

Segir Greiningin að Gylfi Zoega hafi sömuleiðis verið sjálfum sér samkvæmur hvað það varðar að hallast að lægri vöxtum en ákveðnir voru í tvö skipti af átta. Gylfi hafi undanfarin ár verið í dúfuhamnum meðal nefndarmanna, og hafi raunar verið enn eindregnari í því hlutverki árið 2011. „Gylfa bættist svo liðsauki í nýjasta nefndarmanninum, Katrínu Ólafsdóttur, í nóvember í fyrra en Katrín hefði þá fremur kosið óbreytta vexti en hækkun þótt hún greiddi atkvæði með vaxtahækkunartillögu Seðlabankastjóra. Katrín Ólafsdóttir tók við af breska hagfræðingnum Anne Sibert í mars 2012 og tók því þátt í 7 ákvörðunum peningastefnunefndar af 8. Katrín kaus raunar ávallt með tillögu Seðlabankastjóra á síðasta ári. Forveri hennar var hins vegar mesti vaxtahaukur peningastefnunefndarinnar árið 2011. Má af því ráða að með þessum mannabreytingum hafi tilhneiging nefndarinnar til að ákveða hærri stýrivexti en lægri minnkað,“ segir í Morgunkorninu.