Það eru margir góðir kostir við það að taka  upp nýjan gjaldmiðil og verða hluti af stærra myntsvæði, en því fylgja líka margir ókostir, s.s. hættan á auknu atvinnuleysi.

Þetta sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á fundi VÍB um einhliða upptöku annars gjaldmiðils sem fram fór í morgun.

Þórarinn brást við erindi Manuel Hinds, fyrrv. fjármálaráðherra El Salvador, sem fjallaði um upptöku nýs gjaldmiðils hér á landi en hann var sem kunnugt er ráðgjafi stjórnvala þegar El Salvador tók upp Bandaríkjadal sem lögeyri.

Þórarinn tók skýrt fram að hann væri á fundinum að varpa fram sínum eigin skoðunum en ekki Seðlabankans. Hann tók undir margt sem Hinds hafði sagt í erindi sínu en sagði að reynslan af því að taka upp annan gjaldmiðil væri ekki alltaf góð. Þá sagði Þórarinn að í þeim ríkjum í Suður- og Mið Ameríku þar sem Bandaríkjadalur hefði verið tekinn upp hefði stór hluti almennings þegar verið byrjaður að nota Bandaríkjadal umfram þá gjaldmiðla sem í boði voru. Þá hefði dollaravæðingin farið fram með stuðningi stjórnvalda og seðlabanka tilheyrandi ríkja.

Þórarinn sagðist þó ekki ætla að blása hugmyndina út af borðinu. Hann sagði eðlilegt að skoða alla kosti. Að hans mati, út frá efnahagslegu sjónarmiði, væri nær að horfa til evrunnar í ljósi mikilla viðskipta Íslands við önnur ríki Evrópusambandsins. Þá sagði Þórarinn að Ísland ætti margt sameiginlegt með Norðurlöndunum og jafnvel væri hægt að horfa til þess að taka upp danska krónu.

Þórarinn sagði að í ríkjum eins og Panama hefðu fjölmargir viðskiptabankar orðið gjaldþrota á síðustu árum og frá 1973 hefði ríkið þurft að leita 17 sinnum á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í pallborðsumræðum brást Hinds við þessum orðum með því að minna á að stærsta hlutfall gjaldþrota fyrirtækja í Bandaríkjunum væri í Sílikondal, miðstöð hugbúnaðargeirans þar sem Facebook og Google væru m.a. með höfuðstöðvar. Það væri eðlilegur hluti af hagkerfinu að fyrirtæki yrðu gjaldþrota og það væri ekki hægt að kenna gjaldmiðli þar sérstaklega um.