Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að bankinn hafi varað við þeim kjarasamningum sem gerðir voru árið 2011.

Þetta kom fram í máli Þórarins þegar peningamálastefnunefnd fundaði með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Á fundinn mættu Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson og Gylfi Zoega sem allir sitja í peningastefnunefndinni.

Þórarinn var mjög gagnrýninn á þá samninga sem gerður voru árið 2011. Hann bendir á að atvinnumarkaðurinn sé tvískiptur, annars vegar innanlandsmarkaðurinn og hins vegar útflutningsgreinarnar. Sá síðarnefndi hefði ef til vill getað staðið undir þeim samningum sem gerðir voru en ekki sá fyrrnefndi. „Þetta jók verðbólgu en það var grafið undan batanum á vinnumarkaði. Það voru uppsagnir og færri störf,“ sagði Þórarinn.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku fundaði Seðlabankinn með fulltrúum atvinnulífsins og brýndi það fyrir samningsaðilum að láta söguna frá 2011 ekki endurtaka sig.