*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 17. mars 2016 16:39

Þórarinn vildi hækka vexti meira

Á fjórum fundum vildi Þórarinn G. Pétursson hækka stýrivexti meira en aðrir meðlimir peningastefnunefndar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á fjórum fundum peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í fyrra vildi Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, hækka stýrivexti þegar meirihluti nefndarmanna vildi halda þeim óbreyttum eða vildi hækka vexti meira en meirihlutinn vildi gera í viðkomandi skipti. Kemur þetta fram í ársskýrslu Seðlabankans.

Þann 13. maí lagði seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu hafðir óbreyttir. Arnór Sighvatsson, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir studdu tillögu seðlabankastjóra en Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn henni og kaus heldur að hækka vexti um 0,5 prósentur.

Þann 10. júní lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,5 prósentur. Arnór Sighvatsson, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir studdu tillögu seðlabankastjóra en Katrín Ólafsdóttir hefði heldur kosið að hækka vexti um 0,75 prósentur, en var þó þeirrar skoðunar að munurinn væri það lítill að hún gæti fallist á tillögu seðlabankastjóra. Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og kaus heldur að hækka vexti um 1 prósentu.

Þann 19. ágúst lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,5 prósentur. Arnór Sighvatsson, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir studdu tillögu seðlabankastjóra en Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn henni og kaus heldur að hækka vexti um 0,75 prósentur.

Þann 30. september lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu hafðir óbreyttir. Arnór Sighvatsson, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir studdu tillögu seðlabankastjóra en Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn henni og kaus heldur að hækka vexti um 0,25 prósentur.

Á öðrum fundum peningastefnunefndar urðu allir nefndarmenn ásáttir um vaxtaákvörðun.