Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist enn miður sín og skammast sín fyrir að hafa tekið þátt í að gera Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra í Reykjavík. Kemur þetta fram í ítarlegu viðtali við Þorbjörgu í nýjasta tölublaði Nýs lífs.

„Þegar það gerðist vorum við borgarfulltrúarnir sárir eftir REI-málið. Í því máli tókum við sannfæringuna fram fyrir liðsheild og við töldum okkur vera að vinna þjóðþrifamál, með því að stöðva yfirvald sem ætlaði að keyra málin í gegn. Þess vegna þótti okkur gríðarlega ósanngjarnt að missa meirihlutann í kjölfarið. Ólafur F. var veikur maður og það vissu allir. Allir borgarfulltrúar misnotuðu aðstæður hans en við í Sjálfstæðisflokknum gengum skrefinu lengra en hinir með því að bjóða honum borgarstjórastólinn.“

Olafur F. Magnusson
Olafur F. Magnusson
© None (None)

Aðspurð segist Þorbjörg ekki muna hver hafi átt hugmyndina að því að Ólafur yrði borgarstjóri. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sprakk vegna REI-málsins og var í kjölfarið myndaður meirihluti Samfylkingar, Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Margrétar Sverrisdóttur, varamanns Ólafs sem þá var í veikindaleyfi. Eftir að hann kom aftur úr leyfi var myndaður nýr meirihluti Ólafs og Sjálfstæðisflokks og var hann kynntur á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum.

„Ég fékk mörg símtöl frá vinum sem horfðu á beina útsendingu frá Kjarvalsstöðum og sáu skelfingarsvipinn á mér. Ég stóð fyrir aftan Vilhjálm á blaðamannafundinum og gat ekki leynt því hvað mér leið ömurlega. Þetta var alls ekki góður dagur. Vilhjálmur og Ólafur unnu ágætlega saman að einhverju leyti en þetta var alls ekki gott. Þetta var aldrei gott. Ég man mjög skýrt eftir því þegar Ólafur hafði verið borgarstjóri í nokkra mánuði og einn úr okkar hópi með þekkingu á geðheilbrigðismálum gekk inn á fund til okkar borgarfulltrúanna og sagði okkur fullkomlega meðvirk.“

Þorbjörg er í viðtalinu spurð að því hvort það hafi verið valdagræðgi að gera Ólaf að borgarstjóra. „Allavega misnotkun á valdi, að mínu mati.“