Stofnað hefur verið nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í námi og kennslu á netinu. Í Lögbirtingablaðinu í vikunni er sagt frá stofnun félagsins sem ber heitið Trappa ehf. Þar segir að tilgangur félagsins sé að hanna, þróa og selja nám og námskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Athygli vekur að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er skráður stofnandi félagsins.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Þorbjörg að um nýsköpunarverkefni í skólamálum sé að ræða. Verkefnið sé þó enn á hugmyndastigi. „Ég er að stofna fyrirtæki utan um námskeið og nám á netinu, svipað og Khan Academy og fleiri síður í Bandaríkjunum, og kannski fleiri tegundir af þjónustu við skóla á netinu. Fyrirtækið er að stíga sín fyrstu skref og vöruþróun enn yfirstandandi,“ segir hún. Að sögn Þorbjargar verða námskeiðin aðallega ætluð einstaklingum frá þrettán ára aldri og upp úr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .