*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 25. maí 2018 15:51

Þorbjörn þarf að greiða skattinn

Hæstiréttur staðfestir dóm um sýndarviðskipti Þorbjörns hf. og þarf félagið að greiða nálega 100 milljónir til ríkisins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Útgerðarfélagið Þorbjörn hf. í Grindavík hefur verið dæmt til að greiða skattayfirvöldum söluhagnað af kvóta sem færður var á milli félaga í eigu fyrirtækisins. Hæstiréttur hefur dæmt Þorbjörn hf. til að greiða 80 milljóna króna skattgreiðslu sem Ríkisskattstjóri sagði félagið þurfa að greiða vegna viðskipta við dótturfélag sitt.

Staðfestir þar með Hæstiréttur dóm Héraðsdóms frá því 12. maí 2017, en til viðbótar þarf fyrirtækið að greiða 1 milljón krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Með málskostnaði fyrir Héraðsdómi þarf félagið því að greiða 1,8 milljón króna til ríkisins auk 80 milljóna króna skattgreiðslu og 16 milljóna í álagsgreiðslu.

Sýndarviðskipti til að fresta skattgreiðslu

Komust dómstólarnir á þá niðurstöðu að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til að hægt væri að fresta skattlagningu í samræmi við skattalög. Samkvæmt þeim fellur skattlagning kvóta niður ef félag kaupir kvóta á ný fyrir söluandvirði selds kvóta.

Hafði Þorbjörn upphaflega keypt félagið Ævarr ásamt kvóta fyrir 385 milljónir króna, en nafni félagsins var breytt í Páll Ingvarsson. Í kjölfarið keypti Þorbjörn kvóta dótturfélagsins út úr félaginu gegn vaxtalausu láni sem greiða átti til baka tveimur árum síðar.

Loks keypti félagið Páll Ingólfsson kvótann aftur af móðurfélaginu árið 2008 fyrir sömu upphæð, en loks voru félögin sameinuð um ári síðar. Í millitíðinni hafði skip í eigu Þorbjörns veitt út á kvótann án greiðslu til dótturfélagsins.

Segir Ríkisskattstjóri að kvótaviðskiptin hafi verið til málamynda til að fresta skattgreiðslunni í samræmi við frestunarákvæðið, og lögðu skatt á félagið auk 25% álags fyrir að hafa ekki greitt skatt af viðskiptunum.