Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Hún lætur af störfum sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins en við því starfi tekur Sigurbjörn Ingimundarson .

Þá hefur Ólöf Nordal ráðið til sín tvo aðstoðarmenn en fyrr í mánuðinum tilkynnti hún að hún hefði ráðið Kristínu Haraldsdóttur sem aðstoðarmann sinn.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Þórdís hafi lokið ML prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2012. Hún hefur verið framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna frá því vorið 2013. Hún hefur jafnframt starfað hjá embætti sýslumannsins á Akranesi, Marel og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá var hún kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar.

Þórdís Kolbrún hefur tekið þátt í ýmsum félagsstörfum, m.a. verið formaður félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi og setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna og félags laganema við HR.

Þórdís Kolbrún er fædd og uppalin á Akranesi. Hún er í sambúð með Hjalta S. Mogensen lögmanni og eiga þau einn son.