© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti á fundi sínum í dag að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir yrði ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins  en hún  tekur við starfinu af Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur sem starfar nú sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra.

Fram kemur í tilkynningu að Þórdís er 26 ára lögfræðingur, hún lauk BA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og ML gráðu frá sama skóla 2012.

Þórdís Kolbrún var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar. Áður hefur Þórdís m.a. starfað hjá sýslumanninum á Akranesi, Marel og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og hún hefur verið virk í félagsstörfum, m.a. verið formaður ungra Sjálfstæðismanna á Akranesi, setið í stjórn SUS, sambandi ungra sjálfstæðismanna og stjórn Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík.

Þórdís Kolbrún er fædd og uppalin á Akranesi, hún er í  sambúð með Hjalta S. Mogensen, lögmanni og eiga þau árs gamlan son, Marvin Gylfa.