Bankastjórn evrópska seðlabankans vissi ekki í hvorn fótinn ætti að stíga í aðdraganda skuldakreppunnar á evrusvæðinu fyrir tveimur árum. Þessi óvissa og ótti hjá evrópska seðlabankanum við það að áhrif af skuldaðlögun Grikkja myndi valda skelli á fjármálamörkuðum gerði vandann enn verri viðfangs.

Þetta segir Lee C. Buccheit, fyrrverandi formaður samninganefndar Íslands í Icesave-málinu. Hann hefur um árabil stjórnað skuldauppgjörsmálum í mörgum ríkjum heims, svo sem í Suður-Ameríku og Írak, og stýrði m.a. skuldaaðlögun Grikkja.

Buchheit er harðorður í garð þeirra Jean-Claude Tritchet, fyrrverandi bankastjóra evrópska seðlabankans, og Lorenzo Bini Smaghi, fyrrverandi formanns bankastjórnarinnar í nýlegu viðtali við Reuters-fréttastofuna .

Hann segir m.a. bankastjórnina hafa hagað sér eins og sex ára barn, sem fær þá flugu í höfuðið að skrímsli leynist í myrkrinu en gerir ekkert við því.

Reuters-fréttastofan náði ekki sambandi við Trichet í tengslum við málið. Smaghi svarar því hins vegar til að þótt skuldaaðlögunin hafi tekist betur en óttast var þá þýði það ekki endilega að betur hefði gengið að ráðast í málið fyrir tveimur árum.