Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festi, óskaði á stjórnarfundi í dag eftir að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður. Þórður Már segir úr stjórninni eftir að  Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður. Þetta kemur fram í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar.

Tilkynningin kemur í kjölfar ásakana Vítalíu Lazareva um að þrír háttsettir menn úr atvinnulífinu hafi farið yfir mörk hennar í sumarbústaðarferð síðla árs 2020. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, og Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Vistor sögðu sig báðir frá störfum sínum í dag vegna málsins. Hreggviður staðfesti að hann hefði verið einn af umræddum þremur mönnum í bústaðarferðinni.

Brekkar Retail, félag í eigu Þórðar Más, fjárfesti í Festi árið 2014 og var í lok síðasta árs meðal stærstu hluthöfum smásölufyrirtækisins með 1,5% hlut. Hann tók sæti í stjórn Festi árið 2018. Þórður Már var þar áður stjórnarformaður Festi Fasteigna hf. og Höfðaeigna hf. á árunum 2014-2018. Þórður hefur jafnframt setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja undanfarin ár, þar á meðal hjá Olíufélaginu og Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna.

Sjá einnig: Ari og Hreggviður stíga til hliðar

Þá hefur einkaþjálfarinn Arnar Grant, sem sagður er hafa átt í ástarsambandi við Vítalíu og verið meðal viðstaddra í sumarbústaðarferðinni, farinn í tímabundið leyfi. Þetta kom fram í skriflegu svari Björns Leifssonar, eiganda World Class, við fyrirspurn fréttastofu Vísis .

Einnig hyggst Logi Bergmann, fjölmiðla- og útvarpsmaður fara í ótímabundið frí vegna málsins en tilkynnti þetta í Síðdegisþættinum á K100 í dag. Fréttablaðið greinir frá þessu. Spurður um hvernig hann hefði það, svaraði Logi: „Ég hef verið betri en við ætlum að gera hérna útvarpsþátt. Ég hendi einum þætti í loftið núna og svo er ég kannski í smá frí og við sjáum bara til hvað gerist.“