Þórður Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri United Silicon en hann tekur við af Helga Þórhallssyni að því er kemur fram á vef RÚV . Þórður hefur að undanförnu gegnt stöðu aðstoðarforstjóra fyrirtækisins.

Þórður útskrifaðist sem eðlisfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996 og sem doktor í efnisfræði (e. Material Science) frá Norwegian University of Science and Technology (NTNU) árið 2000. Hann gegndi áður stöðu framleiðslustjóra járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.

Starfsemi United Silicon var stöðvuð í byrjun september vegna mengunar en íbúar á Suðurnesjum höfðu kvartað og sumir jafnvel orðið fyrir líkamlegum óþægindum. United Silcon mun ekki geta geta hafið starfsemi á ný nema með leyfi Umhverfisstofnunar sem krefst úrbóta á starfseminni. Mengunaróhöppin höfðu töluverð áhrif á rekstur fyrirtækisins sem nú er í greiðslustöðvun.