Knattspyrnukappinn Þórður Guðjónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Viðskiptastýringar og sölu hjá Símanum. Þórður hóf störf sem viðskiptastjóri lykilviðskiptavina hjá Símanum í fyrrasumar. Hann tekur nú við stjórnartaumum einingarinnar eftir tæpt ár í starfi hjá Símanum og ætlar halda góðum árangri viðskiptastýringarinnar og sækja fram.

„Ég er þakklátur fyrir tækifærið sem ég fæ og fyrir þá tiltrú sem mér er sýnd. Ég er fullur eftirvæntingar og tilbúinn í verkið,“ segir Þórður í tilkynningu frá Símanum. Hann var áður knattspyrnu- og framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA frá árinu 2007 og þar áður atvinnumaður í knattspyrnu. Hann spilaði með þýska liðinu Bochum,  KRC Genk í Belgíu og hjá spænskum og enskum liðum, þar á meðal Stoke City. Hann lék 58 landsleiki með íslenska landsliðinu á ferlinum.

Þórður segir að sér fylgi nýjar áherslur. „En markmiðið er enn það sama; að bjóða íslenskum fyrirtækjum sérsniðnar lausnir, framúrskarandi þjónustu og sanngjarnt verð hjá Símanum.“

Þórður er með B.sc. gráðu í Business Administration frá Háskólanum á Bifröst, er virkur í félagsstörfum  fyrir Akraneskaupsstað; situr meðal annars í jafnréttisnefnd bæjarins. Hann er fertugur og kvæntur Önnu Lilju Valsdóttur og á þrjár dætur.