Lífeyrissjóðirnir munu hafna því að bera nokkurn kostnað af breytingum á skilmálum útistandandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs, verði eftir því leitað. Eina leiðin til þess að fá sjóðina til þess að bera nokkurn kostnað af ÍLS er með því að afnema eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, segir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða í samtali við Bloomberg fréttaveituna.

Þórey S. Þórðardóttir segir í samtalinu að lögum samkvæmt megi lífeyrissjóðirnir ekki semja á öðrum grundvelli en þessum.

Eins og áður hefur komið fram eru ýmsar hugmyndir uppi um það hvernig taka megi á vanda Íbúðalánasjóðs, sem ekki síst er til kominn vegna uppgreiðsluhalla. Lántakendur hjá sjóðnum geta greitt upp sín lán án uppgreiðsluálags en sjóðurinn getur ekki kallað inn eigin skuldabréf á móti.

Í júní óskaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eftir því að eigendur íbúðabréfa sýndu sveigjanleika færi svo að reynt yrði að semja upp á nýtt um ákvæði bréfanna. Eygló Harðardóttir hefur sagst vilja sjá töluverðar breytingar á íbúðalánakerfinu.

Þórey segir að viðræður séu ekki hafnar við lífeyrissjóðina ennþá.