Afar líklegt er að stjórnvöld þurfi að leggja Íbúðalánasjóði (ÍLS) til enn meira fé til viðbótar við þá 13 milljarða króna sem nú hefur verið lofað. Að mati stjórnenda vantar 22,5 milljarða á næstu þremur árum í framhaldi við þá 33 milljarða sem voru veittir í desember 2010. IFS Greining, sem vann skýrslu um stöðu sjóðsins, telur þörf á enn hærra ríkisframlagi, eða samtals 48 milljörðum á næstu þremur til fimm árum.

Stjórnvöld kynntu á þriðjudag margþættar breytingar á rekstri og fyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs. Í fjárlögum næsta árs verður gert ráð fyrir allt að 13 milljarða eiginfjárframlagi til sjóðsins, innheimtuferlar verða endurskoðaðir og fullnustueignir í eigu sjóðsins verða færðar undir sérstakt félag í eigu ríkisins. Í dag eru fullnustueignir yfir 2.000 talsins.  Tillögur starfshóps um vanda Íbúðalánasjóðs og stjórnvöld samþykktu byggja á skýrslu IFS Greiningar. Fyrirtækið var fengið til að leggja mat á áhættu og eiginfjárþörf sjóðsins ásamt því að leggja fram tillögur að aðgerðum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.