Helga Valfells hefur gegnt starfi framkvæmdarstjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá marsmánuði 2010. Helga segir mikilvægt að efla sjóðinn til að geta haldið áfram að fjárfesta enda sé Ísland eftirbátur þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að fjárfestingu í nýsköpun. „Ef við horfum á þau svæði sem mest er fjárfest í nýsköpun eins og í Silicon Valley í Kaliforníu, Boston eða Svíþjóð þá eru þau að fjárfesta hærri hlut í nýsköpunarfyrirtækjum af vergri landsframleiðslu en við.“

Ekki hefur verið haldið utan um tölfræðina hér á landi en Helga reiknaði gróflega að hlutfallið hér væri fjórðungur af því sem er í Kaliforníu þar sem fjárfesting í nýsköpun er hlutfallslega mest. „Við setjum mjög lítið fjármagn í mjög mörg fyrirtæki en í Bandaríkjunum er góðum hugmyndum fylgt vel eftir og þegar fyrirtækið hefur sannað sig þá getur það sótt í mjög djúpa vasa. Hér erum við ekki með neina djúpa vasa í augnablikinu.“

Þá segir Helga að þau fyrirtæki sem hafa náð hvað lengst í tækni hérlendis eins og Össur, Marel og CCP hafi öll á einhverjum tímapunkti þurft á erlendum fjárfestum að halda á ákveðnum stigum. „Ég held að það sé bæði upp á þekkingu og tengslanet og til að fá þessa djúpu vasa.