Norðlenska, Kjarnafæði og SAH Afurðir voru rekin með með samanlagt 328 milljóna tapi á síðasta ári en reksturinn var þungur áður en faraldurinn skall á. Félögin tilkynntu á þriðjudaginn að skilyrði Samkeppniseftirlitsins vegna samruna félaganna hefðu verið uppfyllt. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, kallar eftir frekari hagræðingu meðal sláturhúsa hér á landi.

„Covid-tíminn hefur verið félögunum, sem og öðrum í þessum rekstri, mjög þungur. Hrun í sölu til hótela og veitingastaða hafði mjög neikvæð áhrif á tekjur félaganna og framlegðarmöguleika,“ segir Ágúst Torfi.

Samanlagðar tekjur félaganna þriggja lækkuðu um 11% á síðasta ári, úr 11,4 milljörðum í 10,1 milljarð króna. Mestur var samdrátturinn hjá Kjarnafæði, eða 17%.

„Það er alveg ljóst að sá tími sem tekið hefur að fá heimild til að fullnusta samrunann hefur kostað félögin. Það hefði verið afskaplega æskilegt að við hefðum getað gert þetta hraðar,“ segir Ágúst Torfi, en skrifað var undir kaupsamning fyrir ríflega ári. Með því hefði verið hægt að grípa til frekari hagræðingaraðgerða fyrr.

Erfiður rekstur síðustu ár

„Það er ekki eins og árin þar á undan hafi verið sérstök sigurganga. Greinin þarf mjög á því að halda að hagræða. Það hefur blasað við lengi að þessi samruni væri ákjósanlegur bæði fyrir félögin og greinina í heild,“ segir Ágúst Torfi.

Til marks um þungan rekstur félaganna síðustu ár skilaði Norðlenska síðast hagnaði árið 2013 en samanlagt tap félagsins árin 2015 til 2020 nemur um 580 milljónum króna. Samanlagt tap SAH Afurða á sama tímabili er um 300 milljónir króna en afkoma Kjarnafæðis síðustu sex rekstarár er samanlagt jákvæð um fimm milljónir króna.

Þreifingar og samrunaviðræður félaganna hafa staðið yfir með hléum um nokkurra ára skeið. Árið 2015 var 750 milljóna króna tilboði Kjarnafæðis í allt hlutafé í Norðlenska hafnað. Árin þar á undan hafði samruni félaganna nokkrum sinnum komið til skoðunar. Viðræður hófust á ný árið 2018 og loks náðust samningar fyrir ári.

Norðlenska er í eigu Búsældar ehf., sem er í eigu um 500 bænda. Kjarnafæði og SAH Afurðir eru í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona. Slátrun megi við mikilli hagræðingu „Ég hygg að það væri æskilegt að ganga mun lengra í sameiningarátt í sláturhluta starfseminnar,“ segir Ágúst Torfi um greinina hér á landi. Minni þörf sé á slíku í kjötvinnslu.

Samkeppnin við innflutt kjöt hafi aukist til muna á síðustu árum, sem sé erfitt að keppa við á jafnréttisgrundvelli. Sem dæmi sé samanlögð velta allra íslenskra félaga í greininni innan við 5% af veltu Danish Crown, sem er eitt þeirra erlendu félaga sem selja kjöt til Íslands.

Sláturleyfishafar hafa undanfarin ár kallað eftir því að álíka undanþága fáist frá samkeppnislögum og er til staðar fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði.

Samkeppniseftirlitið og samtök á borð við Félag atvinnurekenda hafa lýst yfir efasemdum um þá leið. Til að mynda hafi verið bent á að samrunar slíkra félaga séu ekki bannaðir, eins og samruni Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH Afurða sýni. Þá þurfi að sýna fram á að slíkt gagnist bændum og neytendum. Kannanir meðal bænda sýni að þeir telji sig almennt í mjög takmarkaðri samningsstöðu gagnvart afurðastöðvunum.

Ágúst Torfi segir að reynsla mjólkuriðnaðarins sýni að þessi leið sé vel fær. „Það þarf að horfa til þess að þetta er óvenjuleg grein með gríðarlega fjárbindingu miðað við veltu og mjög hóflega afkomu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .