Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir brýnt að lækka tryggingagjaldið og afnema bankaskattinn en hann segir nafnið á honum vera öfugmæli. Halldór Benjamín fer um víðan völl í viðtali við Þjóðmál .

„Ég er sannfærður um að besta leiðin til að veita súrefni inn í efnahagsumhverfið nú er tvíþætt; annars vegar að lækka tryggingargjaldið markvisst og hins vegar að afnema bankaskattinn sem er ósanngjarn og óskilvirkur skattur á einstaklinga og fyrirtæki í landinu.“

Þetta segir Halldór Benjamín í viðtalinu en í því er fjallað um aðdraganda og gerð Lífskjarasamningsins sem var undirritaður á síðasta ári, um nýja skýrslu Samtaka atvinnulífsins um menntamál, aðkomu einkaaðila að heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu innviða og þá hugmyndafræðilegu baráttu sem á sér stað um markaðshagkerfið.

Í viðtalinu er einnig fjallað um mikil umsvif og skattaþörf ríkisins og var Halldór Benjamín spurður hvar sú þróun endi.

„Það er rétt, þörfin fyrir skatttekjur er í raun óseðjandi. Nú í haust hef ég verið í samkvæmisleik við sjálfan mig og skoðað atvinnuauglýsingar í blöðum. Óvísindalega get ég fullyrt að meginþorri auglýsinganna er frá opinberum aðilum,“ segir Halldór Benjamín í viðtalinu.

Atvinnulífið er að hagræða um þessar mundir, ekki af því að það vilji það, heldur af nauðsyn. Ef eitthvað er að marka atvinnuauglýsingarnar þá á ekkert slíkt sér stað hjá hinu opinbera og það sést vel í fjölgun opinberra starfsmanna undanfarin ár. Þessi kerfi okkar eru að verða ósjálfbær nema það myndist einhver samfélagsleg sátt um að sífellt verði seilst dýpra í vasa landsmanna. Ég mun leggja mitt af mörkum við að berjast gegn þeirri þróun.“

Þá segir Halldór Benjamín að þrátt fyrir tekjuskattur hafi nýlega lækkað lítillega greiði fyrirtækin enn hátt tryggingargjald.

„Það er lítið búið að lækka tryggingargjaldið, sem er um 100 milljarðar króna á ári. Það er mjög þungur baggi á fyrirtækjum, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum,“ segir Halldór Benjamín.

„Ég er sannfærður um að besta leiðin til að veita súrefni inn í efnahagsumhverfið nú er tvíþætt; annars vegar að lækka tryggingargjaldið markvisst og hins vegar að afnema bankaskattinn sem er ósanngjarn og óskilvirkur skattur á einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Það, að kalla þetta bankaskatt, er einhvers konar öfugmæli hjá ríkinu, þetta eru auknar álögur á láglauna- og millitekjufólk, en ekki hátekjufólk, og einnig á fyrirtækin í landinu. Í fullkomnum heimi myndu SA og verkalýðsfélögin ná samstöðu um að styðja ríkið við að afnema bankaskattinn en verkalýðshreyfingin hefur ekki megnað að ná saman um það.“

Nánar má lesa um málið á vef Þjóðmála sem og í tímaritinu sjálfu sem bæði fæst í áskrift og í betri ritfangaverslunum.