Halldór Óskar Sigurðsson er framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi. Þörf er á tilbreytingu í samkeppnismálum á Íslandi segir Halldór í viðtali við Viðskiptablaðið.

Halldór var upphaflega ráðinn framkvæmdarstjóri þegar til stóð að opna verslunina í lok árs 2008. Honum var sagt upp störfum eins og öðru starfsfólki sem hafði verið ráðið þar sem opnuninni var frestað um óákveðinn tíma. Halldór snéri aftur til starfa fyrir rúmu ári og verslunin var svo opnuð 5. maí síðastliðinn.

Þörf á tilbreytingu

Hver er þín skoðun almennt á samkeppnismálum hér á landi? Er pláss fyrir ný fyrirtæki og erlendar keðjur til að koma inn á samkeppnismarkaði hér? „Ég held að það sé virkilega mikil þörf á því að fá tilbreytingu hérna á Íslandi. Mér finnst að Íslendingar ættu að vera jákvæðir í hugsun og ekki vera að spóla í sama farinu. Þessi verslun boðar ákveðna breytingu líka. Það er jákvætt að Bauhaus hafi tekið þessa ákvörðun og þetta er symbólískt líka varðandi kreppuna að við séum á leið upp á við. Kúnninn er  búinn að vera í frysti undanfarin ár og það vantar einhverja nýja strauma,“ segir Halldór og bætir við að svipaða sögu sé að segja af viðskiptavinum. Fólk hrósi þeim fyrir frábært framtak og gleðst yfir því að það sé eitthvað nýtt á ferðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.