„Stjórnvöld hafa það í hendi sér að gera starfsumhverfi innlendra fyrirtækja samkeppnishæft við önnur ríki. Nú þegar hægir á  efnahagslífinu þarf verulegar umbætur í starfsumhverfi fyrirtækja svo við drögumst ekki aftur úr í samkeppni þjóða. Bæta þarf skilvirkni, auka hagkvæmni og tryggja stöðugleika. Án efa er vilji til að gera betur en nú reynir á hvort áræðni sé fyrir hendi til að breyta hlutunum. Það blasir við að hefjast þarf handa strax. Samkeppnishæfni Íslands er í húfi." Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Morgunblaðinu í dag sem ber yfirskriftina Áræðni til breytinga?

Hann segir jafnframt að það starfsumhverfi sem stjórnvöld búi íslenskum fyrirtækjum sé óstöðugt, óskilvirkt og óhagkvæmt og að það dragi verulega úr samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja, minni verðmæti verði til en ella og lífskjör í landinu séu ekki eins góð og þau gætu verið.

Ekki stöðugt, skilvirkt eða hagkvæmt

Í greininni segir Sigurður að á hverjum einasta degi keppi ólík fyrirtæki frá flestum löndum heims sín á milli um hylli viðskiptavina og að sú umgjörð sem stjórnvöld búi atvinnulífi á hverjum stað fyrir sig ráði miklu um það hversu vel fyrirtækjum gengur í samkeppni á mörkuðum heimsins. Stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt starfsumhverfi hér á landi getur leitt til meiri verðmætasköpunar innlendra fyrirtækja, bætt samkeppnishæfni og aukið þar með velmegun í landinu.

Hátt raungengi, há laun, háir vextir og háir skattar

Sigurður segir í grein sinni að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé ekki hagkvæmt í alþjóðlegum samanburði. Hátt raungengi krónu og há laun í alþjóðlegum samanburði dragi verulega úr mætti íslenskra fyrirtækja til að keppa við erlend fyrirtæki sem starfi þar sem laun og vextir eru lægri. Við þetta bætist síðan háir vextir og háir skattar.