Segja má að hraðhleðslunet landsins fyrir rafbíla sé komið að þolmörkum eftir mikla aukningu í rafbílasölu síðustu misseri. Stöðvarnar dekka hringveginn ágætlega, en eru bæði hægvirkar í samanburði við nýjustu tækni og geta aðeins hlaðið einn bíl í einu á hverjum stað.

Samið hefur verið um opinbera styrki fyrir uppsetningu nýrra og öflugri stöðva sem hlaðið geta fleiri en einn bíl í einu um allan hringveginn auk Vestfjarða, en uppsetning þeirra hefur tafist. Lítið liggur fyrir um nákvæmar tímasetningar, en útlit er fyrir að nokkuð muni bætast við af stöðvum strax í sumar, og það sem eftir stendur af þeim 43 stöðvum sem styrkirnir ná til rísi á næsta ári.

Faraldurinn tafið uppsetningu 43 nýrra stöðva
Í nóvember síðastliðnum var tilkynnt um að Orkusjóður myndi úthluta 227 milljónum króna til að hámarki helmingsstyrkja til uppsetningar nýrra og öflugri hraðhleðslustöðva, samtals 43 talsins um allt land. Í janúar voru svo gerðir formlegir samningar við fjóra aðila um uppsetningu og styrkveitingu: Orku náttúrunnar (ON), Ísorku, Olís og Tæknivit.

Stöðvarnar verða 150 kílóvött og munu geta hlaðið að lágmarki tvo bíla samtímis – en hleðsluhraðinn skiptist þá á milli bílanna – og verða staðsettar á svo til öllum stöðum við hringveginn sem fyrir hafa 50 kílóvatta stöð (sjá kort).

Jakob Björnsson, framkvæmdastjóri Orkusjóðs, segir flesta styrkþegana ekki hafa ætlað sér meira en 3-4 mánuði í verkið, sem hefði þá átt að klárast nú í maí. Tímasetning úthlutunarinnar og heimsfaraldurinn hafi hins vegar sett strik í reikninginn.

„Menn eru í startholunum núna. Oft þarf að leggja öflugri raftengingu inn á svæðið, og það getur tekið svolítinn tíma. Víða er jarðvinna þessu tengd og þú ferð ekki í þetta um hávetur,“ en í janúar í kjölfar úthlutunarinnar hafi skollið á nokkuð þungur vetur sem hafi því tafið verkið nokkuð. Í kjölfarið hafi svo kórónufaraldurinn tafið framkvæmdina enn frekar.

Jakob er þó bjartsýnn á að stór hluti stöðvanna komist í gagnið nú í sumar. „Undirbúningsvinnan er að ég held tafsömust. Að útvega stöðvarnar sjálfar og í einhverjum tilfellum sækjast eftir breytingu á deiliskipulagi, sé þess þörf. Menn eru á fullu að undirbúa sig og ætla sér að koma þessu upp fyrir sumarið,“ segir hann, þó ekki liggi fyrir nákvæmar dagsetningar. „Það er ánægjulegt að sjá rafbílum fjölga og þá vantar stöðvar. Það er þá ekki um annað að ræða en að drífa sig.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .