Sjóvá er í 15. sæti yfir stór fyrirmyndarfyrirtæki að mati Viðskiptablaðsins og Keldunnar en Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir stöðu fyrirtækisins mjög sterka og að ánægja meðal starfsmanna fyrirtækisins skili sér í betri samskiptum við viðskiptavini. „Staðan okkar í Sjóvá er mjög sterk og við stöndum mjög vel t.d. í jafnréttismálum. Við erum með jafnlaunavottun og mikið og gott jafnvægi milli kynja, bæði upp úr og niður úr getum við sagt. Bæði í framkvæmdastjórn, meðal forstöðumanna, stjórnenda og allra starfsmanna stöndum við mjög sterkt. Þetta skiptir miklu máli,“ segir Hermann.

„Svo tel ég mjög sterkt hvað við höfum skemmtilega aldursdreifingu og við erum með góða breidd í starfsaldri. Bæði erum við með ungt og mjög efnilegt og flott fólk og svo eldri reynslubolta. Bæði í kynjahlutföllum, starfsaldri og lífaldri erum við með mjög breiðan og góðan hóp starfsmanna.

Við erum að mælast í vinnustaðagreiningum meðal allra sterkustu vinnustaða á landinu í starfsánægju. Það er okkur gríðarlega mikilvægt, við erum í þjónustuhlutverki og þá er lykilatriði að starfsánægjan og líðanin á vinnustaðnum sé góð.

Við erum líka að merkja mikil og sterk viðbrögð meðal okkar viðskiptamanna. Það er stöðugt vaxandi ánægja með okkar þjónustu. Góður starfsandi smitast út í ánægju meðal viðskiptavina en svo erum við líka að leggja áherslu á frumkvæðissamskipti við viðskiptavininn og hann kann að meta það,“ segir Hermann.

Tækifærin liggja í tækninni

Hermann segir að Sjóvá leggi mikið upp úr því að innleiða tæknina inn í samskipti og þjónustu við viðskiptavini. Við erum farin að bjóða upp á stafræna afgreiðslu þegar kemur að tjónum. Það er það sem koma skal, við þurfum að halda áfram og feta lengra út á þann stíg því í innleiðingu tækninnar liggja helstu tækifærin og áskoranirnar. Sumir þurfa að temja sér þessa nýju tækni í samskiptum á meðan á sama tíma er að koma upp kynslóð sem er ekki vön öðru og vill afgreiða sig sjálf á netinu og því þarf að svara. Við erum komin með tjónstilkynningar sem er hægt að ganga frá á netinu og í gegnum snjallsímann,“ segir hann.

Ynging bílaflotans var þörf

Bílafloti landsmanna hefur verið að yngjast ört á síðustu misserum en aðspurður segir Hermann að kaup á dýrari og fleiri tryggingum haldist í hendur við kaup landans á nýjum bílum. „Fyrir fjórum árum var bílaflotinn orðinn mjög gamall þannig að innbyggð þörf á endurnýjun og yngingu flotans var alveg augljós. Það hefur verið að eiga sér stað, bæði hjá bílaleigunum en líka einstaklingum. Auðvitað fylgir því þá dýrari tryggingar, bæði eru þetta dýrari tæki en líka kaskótryggingar og slíkt.

Það fylgir því líka að bílarnir eru dýrari úr garði gerðir. Sem dæmi má nefna að tjón á stuðurum sem áður töldust minni háttar tjón eru mun dýrari nú vegna allra þeirra skynjara sem eru í þeim. Á móti má þó einnig segja að bílarnir eru þá þannig úr garði gerðir að þeir eiga líka að draga úr alvarlegri slysum einmitt vegna nemanna og skynjaranna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .