Í nýju sérblaði Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn er fjallað um slæma stöðu fyrstu kaupenda og tekjulægri einstaklinga á markaðnum í dag.

Hannes Steindórsson, einn eigenda fasteignasölunnar Lindar og fyrrverandi formaður Félags fasteignasala, bendir á að með því að taka tekjulægri og fyrstu kaupendur tímabundið „úr leik“ safnist upp mikil eftirspurn sem brjótist svo fram þegar efnahagsástandið batnar og vextir lækka. Það verði svo til þess að margir séu að bítast um sömu eignirnar með tilheyrandi hækkun íbúðaverðs.

„Þörfin hverfur ekkert þó að þessum hópum sé tímabundið gert erfitt fyrir. Á einhverjum tímapunkti vill flest fullorðið fólk flytja úr foreldrahúsum eða koma sér af leigumarkaði. Þegar vextir lækka og ef 35% reglan verður rýmkuð má reikna með að þörfin verði ennþá til staðar og að jafnvel um 4.000 nýir kaupendur komi inn á markaðinn á einu bretti. Þeir munu þá hreinsa upp allt magnið, sem gætu verið á bilinu 500-1.000 eignir sem henta þessum markhópi. Þá lendum við í nákvæmlega því sem gerðist í COVID; nánast allar íbúðir seljast strax og fasteignaverð fer aftur á flug.“

Vandinn eigi rætur sínar að rekja til tímabilsins eftir hrun þar sem aðeins um 1.800 íbúðir voru byggðar á höfuðborgarsvæðinu á 3-4 árum.

„Í raun höfum við aldrei náð okkur almennilega á strik eftir hrun. Síðasta sumar kynnti innviðaráðherra metnaðarfull markmið um að byggðar verði 3.500 íbúðir á ári næsta áratuginn til að bregðast við íbúðaskorti. Það hefur aðeins tekist í örfá skipti að byggja fleiri en 3.000 íbúðir á einu ári síðastliðna tvo áratugi. Miðað við tölur frá HMS í dag næst kannski að byggja um 1.800 íbúðir á þessu ári, sem er ansi langt frá 3.500 íbúða markmiðinu. Að auki hefur verið greint frá því að markmiðið náist ekki heldur á næsta og þarnæsta ári,“ segir Hannes.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaði, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.