Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds hefur ráðið Þorgeir Auðunn Karlsson sem tæknistjóra (CTO). Undanfarin þrjú ár hefur Þorgeir farið fyrir tæknimálum við þróun á leiknum Starborne: Sovereign Space.

„Áhersla Solid Clouds hefur alltaf verið að búa til sterkan tæknigrunn til að auðvelda þróun við framtíðarverkefni. Þorgeir hefur verið og verður áfram mikilvægur í þeirri stefnu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Áður en Þorgeir kom til Solid Clouds var hann tæknistjóri og meðstofnandi sprotafyrirtækisins Radiant Games. Þorgeir er með MS gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Reykjavíkur árið 2018. Hann hefur einnig unnið við gervigreindarrannsóknir við Emory University.

Sjá einnig: Solid Clouds gefur út nýjan Starborne leik

Solid Clouds lauk á dögunum 725 milljóna króna hlutafjárútboði. Fjórföld eftirspurn var í útboðinu en rúmlega 2.700 fjárfestar tóku þátt. Hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta á First North markaðnum í gær .