Rangt er hjá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi haustið 2008 staðið í vegi fyrir því að stjórnvöld leituðu komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þetta segir þingmaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Geirs fram að stjórnarslitum í byrjun árs 2009.

Beðið fyrir utan ráðherrabústaðinn
Beðið fyrir utan ráðherrabústaðinn
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Þorgerður skrifar aðsenda grein í Fréttablaðinu í dag og gerir að umfjöllunarefni sínu grein Össurar um utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins á laugardag undir fyrirsögninni „Óraunsæi Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum“. Í greininni rifjar Össur upp að árið 2008 hafi Seðlabankinn gert út leiðangra til Seðlabanka Evrópu, Alþjóðabankans í Basel, Englandsbanka og bandaríska seðlabankans og fleiri með það að markmiði að fá lán til að efla gjaldeyrisvarasjóð landsins eða koma á gjaldeyrisskiptasamningum. Svarið var hins vegar að staða landsins væri of slæm til að nokkurt ríki vildi koma því til hjálpar. Seðlabankar heimsins vísuðu á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

180 gráðu beygja Sjálfstæðisflokksins

Össur skrifaði á laugardag:

„Sjálfstæðisflokkurinn brást við með því að taka 180 gráðu pólitíska beygju í utanríkismálum á einni nóttu. Trúnaðarmaður flokksins var gerður út á vit fornra fjanda Sjálfstæðismanna úr kalda stríðinu til að slá risastór lán. Nú voru það Rússar sem voru hinir nýju vinir Sjálfstæðisflokksins. En dómgreindarglöpin voru slík að hið margfræga Rússalán sem kynnt var árla dags í fréttatilkynningu af seðlabankastjóra flokksins eftir svefnlitla nótt reyndist draumsýn ein. Hið eina sem flokkurinn uppskar eftir þetta ævintýri voru kaldhæðnislegar athugasemdir gamalgróinna vinaþjóða um stefnuleysi Íslands. Jafnvel eftir hrunið tók það heilan mánuð að fá forystu Sjálfstæðisflokksins til að leita eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurreisn íslenska bankakerfisins.“

Segir Geir hafa viljað leita til AGS

Þorgerður Katrín segir í dag Össur fara með rangt mál.

„Þetta er ekki bara billegt heldur ómaklegt því það var fyrst og fremst Geir Haarde sem beitti sér fyrir komu sjóðsins hingað til lands, líkt og hann beitti sér af einurð fyrir setningu neyðarlaganna. En það er eftir öllu af ríkisstjórnarflokkunum að gera sem minnst úr hlutverki Geirs á þessum örlagatímum þegar taka þurfti erfiðar ákvarðanir.“

Þorgerður heldur áfram og segir þvert á móti að Össur og Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var félagsmálaráðherra, hafi verið á móti því að leitað yrði á náðir AGS:

„Í byrjun októbermánaðar, nánar tiltekið kvöldið 5. október 2008, fékk forsætisráðherra Ingimund Friðriksson seðlabankastjóra á fund ríkisstjórnar til að útskýra í hverju samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fælist. Þá höfðu tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar uppi mikla fyrirvara við komu sjóðsins hingað til lands. Nokkuð stór orð féllu. Töldu þeir reynslu alþýðu manna víða um heim af sjóðnum hafa verið vonda og því ætti Ísland að gjalda varhug við því að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til Íslands. Þessir tveir ráðherrar voru Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Geir vildi aftur á móti leita samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og naut þar áralangrar reynslu sinnar af samstarfi við sjóðinn úr fyrri störfum. Nýttist sú reynsla vel við að móta samning, nokkuð nýstárlegan miðað við það sem alla jafna gilti hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hentaði íslenskum hagsmunum. Vegna þessa kom m.a. Daninn Paul Thomsen stuttu síðar til landsins á vegum AGS og fór á fund nokkurra ráðherra ríkisstjórnar til að útskýra hvernig hugsanlegu samstarfi við sjóðinn gæti verið háttað. Á þeim fundi miðjum snerist utanríkisráðherra núverandi eins og hendi væri veifað og taldi rétt að ganga til samstarfs við sjóðinn. Það var síðan gert góðu heilli. Á þessum örlagaríku vikum þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. Þótt eftiráspeki geti verið hvimleið þá var sú ákvörðun að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hárrétt, sem og setning neyðarlaganna. Reyndar hvorugt ákvarðanir sem Vinstri-græn studdu. Þau mega þó eiga það að þau fylgdu síðan nokkuð fumlaust þeirri áætlun sem fyrir lá í samskiptum Íslands við AGS þegar þau voru komin í ríkisstjórn.“